Æi, jólin eru annars alveg ágæt. Það er að segja ef maður tekur þau ekki of alvarlega.
Ég fékk vöfflujárnið sem ég vildi fá í jólagjöf, og það meira að segja bara eitt (það eru til konur sem vilja heimilistæki í jólagjöf. En ekki margar). Svo gáfu blessuð börnin mér þráðlausan síma af því að það voru allir orðnir löngu hundleiðir á að detta um tíu metra langa símasnúru. Nú get ég verið enn meiri sófakartafla en áður og þarf ekki einu sinni að standa upp til að svara ef einhver hringir á meðan ég er að horfa á súmóglímu. Eða eitthvað. Reyndar horfðum við efnafræðistúdentinn ekki á súmóglímu á aðfangadagskvöld eins og áður hefur gerst en það var vegna þess að hann laumaðist inn til sín til að spila nýja tölvuleiki eða horfa á DVD-útgáfuna af Hringadróttinssögu, ekki veit ég hvort, og maður horfir ekki einn á súmóglímu.
Ég fékk líka alls konar góðgæti, Jamaica Blue Mountain-kaffi og fleiri góðar tegundir, úrval af ostum og súkkulaði, stórt stykki af parmigiano-osti, rauðvínsflösku og fleira. Og dagatal sem Eldfjallið hafði sjálft búið til, með mynd af henni.
Enga bók, enda hafði ég frábeðið mér slíkt nema þá matreiðslubækur, en ég gaf efnafræðistúdentinum meðal annars
The Hollow Chocolate Bunnies of the Apocalypse og er að byrja á henni. Annars var ég að lesa
A Twist at the End um jólin. Steven Saylor er einn af mínum uppáhaldshöfundum en ég varð fyrir vonbrigðum með þessa bók eftir mjög góða byrjun - hún var frekar fyrirsjáanleg og það vantaði alveg ,,twistið" sem maður átti von á í lokin. Þá er nú meira gaman að lesa um Gordianus og baktjaldamakkið og pólitísku plottin í Róm í lok lýðveldistímans.
Jólamaturinn var nýsjálensk dádýrasteik með rauðvínssósu, smjörsteiktum hvítlaukskrydduðum kastaníusveppum, rósmarínkartöflum ofnsteiktum í andafeiti, krydduðu rauðkáli með balsamediki og trönuberjum, hlynsírópsbragðbættu eplasalati og fleiru. Alveg ljómandi gott þótt ég segi sjálf frá. Eldfjallið tilkynnti náttúrlega nokkrum dögum fyrir jól að hún vildi ekki borða Bamba, hún vildi fá önd eins og venjulega, og það yrðu að vera brúnaðar kartöflur með. Einhver spurði hana hvort hún vildi þá frekar borða Andrés önd en Bamba en hún sagði að þetta væri sko ekki Andrés, heldur einhver frek og leiðinleg önd. Ég reyndi að útskýra fyrir henni að þetta væri hvorki Bambi né mamma hans, þetta væri stóri ljóti frændinn hans sem við ætluðum að borða, en það þýddi ekkert. Hún vildi sína önd. Þar sem ég átti franska andabringu í frysti fékk blessað barnið auðvitað sérþjónustu, andabringu með brúnuðum kartöflum, og lét sér vel líka. Á eftir var þrílitur súkkulaðiís með hindberjasósu og hvítri súkkulaðisósu, ég komst ekki upp með annað - efnafræðistúdentinn tilkynnti að það væri allt í lagi að breyta til með aðalréttinn en ísinn væri heilagur.
Eitthvað voru gestirnir á Þorláksmessu færri en venjulega, trúlega vegna veðurs, en þó var eiginlega ekki afgangur af neinu nema skinkunni, og það ekki svo ýkja mikill - ef hún hefði verið jafnstór og í fyrra hefði hún sennilega klárast.