Jæja, þá fer ég að leggja í hann. Búin að pakka niður og notaði hálftímaregluna eins og venjulega (það sem ekki er komið niður í tösku hálftíma eftir að ég byrja að pakka fer einfaldlega ekki með), búin að skila af mér flestum verkefnunum sem ég ætlaði að ljúka áður en ég fer í frí, búin að birgja efnafræðistúdentinn upp af mat og öðrum nauðsynjum, búin að tékka á að vegabréfið sé ekki útrunnið og kortin mín ekki heldur - er eitthvað fleira?
Best að enda á samtali sem ég heyrði í gær:
Boltastelpan (að skrifa á bloggið sitt): - Á að segja mig eða mér?
Efnafræðistúdentinn: - Ha??
Boltastelpan, þolinmóð: - Á ég að skrifa mig eða mér?
Efnafræðistúdentinn: - Hvað ertu að meina, þig eða þér?
Boltastelpan: - Ooooh, skilurðu ekki? Á ég að skrifa mig hlakkar til eða mér hlakkar til?
Efnafræðistúdentinn: - Ég hlakka til.
Boltastelpan: - Ha, ég hlakka til að fara til útlanda? Það er skrítið.
Bless á meðan.