Eitthvað erum við mæðginin að skríða saman, ég er allavega hætt að fá kölduflog í hvert sinn sem ég sting stórutánni undan sænginni og er miklu betri í hálsinum en ég var í nótt svo að kannski slepp ég við að fara til læknis í þetta skipti.
Reyndar geri ég mér ekki tíðförult til lækna; ég man ekki hvort ég hef sagt frá því hér áður en eftir erfiða veikindanótt fyrir mörgum árum skreiddist ég fram í stofu, hugsaði með mér að nú yrði líklega ekki komist hjá því að heimsækja heimilislækninn minn (sem ævinlega heilsaði mér með orðunum ,,já, það ert þú sem lest Njálu". Sendi einhvern niður eftir Mogganum til að lesa á meðan ég væri að safna þreki til að labba á næstu strætóstoppistöð til að komast til læknisins inni í Kringlu. Opnaði Moggann og það fyrsta sem blasti við mér var mynd af mínum ágæta heimilislækni, hann hafði dáið daginn áður.
Ég fékk annan heimilislækni seinna og er búin að hafa hann í sirka fimm ár en mundi ekki einu sinni vita hvernig hann lítur út ef hann væri ekki frændi minn. - Sko, ég hef ekkert á móti læknum sem slíkum, mér finnst bara ekki ástæða til að leita til þeirra út af hvaða smáskitteríi sem er. Þetta á örugglega eftir að koma mér í koll fyrr eða síðar.