Plús í kladdann fyrir Amazon
Amazon.co.uk er þegar búið að endurgreiða mér bækurnar sem ég saknaði, plús sendingarkostnað. Svo að nú mega þær dúlla sér í Saulheim eða einhversstaðar til eilífðarnóns mín vegna. Og ef DHL skyldi nú birtast einhvern daginn geri ég þá bara afturreka með pakkann. Gott á þá.
Ég er búin að vera að panta bækur úr öllum heimshornum árum saman og man bara eftir að það hafi gerst einu sinni að sending hafi ekki skilað sér. Það var bók sem ég pantaði frá fornbókasala í Kanada, fékk staðfestingu um að hún væri lögð af stað, gleymdi henni svo og áttaði mig ekki á fyrr en nærri ári síðar að hún hafði aldrei komið fram. Fannst þá allt of seint að vera að gera mál úr þessu.
Stundum hafa bækur verið lengi á leiðinni, mikil ósköp. Það er til dæmis ekki á góðu von ef maður lætur senda sér bók frá Ameríku með sjópósti. Bækur sem ég hef keypt af suðurafrískum fornbókasölum hafa oft verið lengi að berast og Máritíus er ekki beint í þjóðbraut, uppgötvaði ég þegar ég keypti bók af manni sem þar býr. Bók frá Guam fékk ég þó á innan við viku og einu sinni pantaði ég bók frá Óman sem var komin eftir tvo daga og sendingarkostnaður nánast enginn.
En þessar bækur voru nú semsagt bara sendar frá Englandi.