Ættarmótið, já - (myndirnar eru færri en ég hefði viljað en batteríin kláruðust). Við lögðum af stað á laugardagsmorgun norður og vorum komin um hádegi. Stoppuðum aðeins á Króknum hjá gömlu hjónunum og fórum svo fram í Steinsstaðaskóla og tjölduðum. Glampandi sól og hiti.
Svo fórum við yfir í Dal, þar sem ættingjarnir voru teknir að streyma að. Mætingin var góð, mér skilst að hátt í 120 manns hafi komið og ég vissi ekki einu sinni að það væru svo margir í ættinni ... Oddur systursonur minn var búinn að sjá svo marga nýja ættingja að hann benti á einn af hundunum í Djúpadal og spurði: -Er hann frændi minn?
Það var dálítil gola en í garðinum hennar Elinborgar sunnan við bæinn var gott skjól og þar söfnuðust allir saman, fengu brennivín eða eplasnafs og harðfisk í boði Balcan Seafood og Siggi Hansen las söguna af því þegar Hólmfríður langalangalangamma lyfti hestasteininum, sem ýmsir karlmenn höfðu gefist upp á; hún var þá komin eina sex mánuði á leið. Það hafa löngum verið hraustar konur í Djúpadalsætt.
(Hólmfríður lét sig heldur ekki muna um að ala upp a.m.k. eitt af nokkrum framhjátökubörnum Eiríks hreppstjóra, manns síns; það var Eiríkur langalangafi minn. Hann var fæddur sama ár og Valgerður langalangamma, sem var hjónabandsbarn, og þau ólust upp saman. Ég er semsagt afkomandi beggja. Já, ég var búin að segja að ég væri skyldleikaræktuð.)
Steinninn sem Siggi stendur á
hér er ekki hestasteinninn, heldur fiskasteinninn, sem var notaður til að berja harðfisk á. Báðir hafa staðið við Djúpadalsbæinn í að minnsta kosti tvö hundruð ár og sennilega miklu lengur. Við hliðina á fiskasteininum má sjá í steinhellu sem var í fjósinu í Dal í á annað hundrað ár.
Kvöldverðurinn var í Árgarði og það var kvenfélagið í Lídó sem sá um hann eins og venjulega. Það var í lagi en af því að ég fer nokkuð oft á ættarmót fyrir norðan, þá vildi ég óska að þær skiptu um matseðil af og til - mig langar eiginlega ekki í ofsteikt lambalæri með dósagrænmeti og emmessís með blönduðum ávöxtum úr dós nema í mesta lagi fimmta hvert ár.
Svo var náttúrlega eitthvað af ræðuhöldum - meira annars hvað sumir ættingjar mínir verða sentímental við svoleiðis en Gunna systir bjargaði því nú með því að rifja upp sannar sögur af uppvexti okkar systkinanna með ,,piltunum" í Djúpadal - og Ásgeir frændi minn söng nokkur einsöngslög. Annars var ekkert sungið. Það hefði nú ekki gerst í föðurættinni. En það var spjallað og drukkið fram eftir nóttu. Annars eru eiginlega engir almennilegir drykkjumenn eftir í Dalsættinni, þeir sem eftir lifa eru annaðhvort hættir að drekka eða farnir að gæta hófs. Það er af sem áður var, afa hefði þótt lítið til koma. Eiríkur Stefán frændi minn (frændurnir heita flestir Eiríkur, nema þeir heiti Stefán; þessi sameinar það) rifjaði upp sögu af því þegar afi kom suður, líklega kominn um áttrætt, til að fá sér nýjar tennur, og heimsótti þá Eirík bróður sinn, afa Eiríks Stefáns. Þegar Eiki heyrði erindið sagði hann: -Nonni! Þú hefur ekkert með falskar tennur að gera, þú átt svo stutt eftir. Hugsaðu þér allt brennivínið sem þú gætir keypt fyrir peningana!
Það voru ýmsar svona sögur rifjaðar upp og þetta var býsna skemmtilegt. Samt hugsa ég að fáir hafi skemmt sér betur en Sauðargæran, sem eignaðist nýjan besta vin í Skarphéðni frænda sínum (þeir eru jafnaldrar en afi annars og langalangafi hins voru bræður). Þeir fengu að leika sér úti fram yfir eitt um nóttina,
fóru á ljónaveiðar, grófu eftir fjársjóði, renndu sér á rassinum niður moldarbing og nutu skagfirsku næturblíðunnar eins og fimm ára guttum einum er lagið. Ég var eiginlega búin að gleyma hvað það gat verið gaman að vera sveitabarn.