Við erum enn að borða okkur í gegnum eftirstöðvarnar af myndatökumatnum. Ég er samt búin að setja það sem eftir er í frysti (skildi þó eftir smávegis handa efnafræðistúdentinum ef hann skyldi reka inn nefið á morgun) og búin að lýsa því yfir að það verði ekki brúnaðar kartöflur hér á boðstólum aftur fyrr en í fyrsta lagi um jólin. Boltastelpan, sem þykir brúnaðar kartöflur besti matur sem hægt er að hugsa sér, er búin að lifa í vellystingum undanfarna viku.
Núna langar mig í fisk. Til dæmis ofnbakaðan þorsk með tómötum, ólífum og kapers. Eða skötusel með kummini og sítrónu.
Ég fór aftur á lagersöluna hjá Lindinni (Þorsteins Bergmann-lagerinn) og keypti eitt og annað. Það er enn að koma þangað nýtt dót mér skilst að það sé a.m.k. eitt herbergi eftir fullt af kössum sem enginn veit almennilega hvað er í og á eftir að bætast við. Stórhættulegt fyrir safnara eins og mig. Ég keypti stóran kassa með leikfanga-bökunardóti handa Sauðargærunni og gaf honum áðan. Hann var mjög hrifinn. Svo keypti ég líka hluta af jólagjöfinni handa efnafræðistúdentinum og fleira.
Ég rak augun í sirka tvö hundruð lítra pott úti í horni. Ég keypti hann ekki. En það var mest af því að ég nennti ekki að labba með hann heim. Svona pottur gæti örugglega komið sér vel einhvern tíma. Er það ekki?
Eins gott stundum að ég er ekki á bíl.