Skaust norður um helgina með gagnlega barninu, barnabörnunum og bróðursyni mínum. Við gistum bara eina nótt en þetta var fínt. Einna skemmtilegast fannst mér þó að hlusta á aftursætisfarþegana á leiðinni suður. Það er að segja, eftir að þau gáfust upp á ferða-DVD-spilurum og tölvum sem voru með í för. Þá fóru þau nefnilega í ,,hver er maðurinn?" öll þrjú. Það gat verið skondið vegna þess að þótt þau tvö eldri séu á svipuðum aldri (tólf og þrettán) liggja áhugasvið þeirra ekki beinlínis saman. Og að minnsta kosti Boltastelpan gerir sér fulla grein fyrir því.
Boltastelpan: -Ingólfur. Franskur
og stjórnmálamaður? Gleymdu því. Þú verður að spyrja um eitthvað sem ég
gæti vitað.
Frændinn: -En það vita
allir hver Nicolas Sarkozy er ...
Sauðargæran var með í leiknum þótt hans þekkingarsvið væri að vísu fremur takmarkað og flestir sem hann hugsaði sér reyndust vera nánir ættingjar.
Boltastelpan: - ... Er þetta ... afi Raggi?
Sauðargæran: -Já!
Frændinn: -Hey, þetta er ekki réttlátt, það verður að spyrja um einhvern úr sameiginlegu fjölskyldunni, einhvern sem ég þekki líka.
Boltastelpan: -Þú spurðir áðan um bróður George Bush.
Sauðargæran hafði hugsað sér mann, aldrei þessu vant ekki úr fjölskyldunni, heldur útlending sem hann uppástóð svo að væri ekki frægur. Eftir nokkurt spurningaflóð, þar sem kom fram að hér væri um að ræða dauðan tónlistarmann, kom í ljós að þetta var Beethoven.
Frændinn: -En Beethoven er frægur, hann er eitt frægasta tónskáld í heimi!
Sauðargæran: -Ingólfur, ert þú að læra tónlistarfræði?
Frændinn: -Nei ...
Sauðargæran: -Þá veist þú ekkert um Beethoven.
Málið útrætt.