Ég get nú eiginlega tekið heilshugar undir það sem
Egill segir hér, að það hafi verið gott að alast upp á þeim tíma þegar tækifæri til dópneyslu voru takmörkuð. Eða þurfti allavega að leita þau uppi. Ekki síst norður í landi. Það hefur víst breyst eins og fleira.
Ég er ekki viss um að ég kæmist heil á húfi gegnum unglingsárin ef ég væri til dæmis fjórtán ára núna. Svo er aftur spurning hvort ég gerði það yfir höfuð - en það er önnur saga.
Reyndar tók ég aldrei undir mottóið ,,lifðu hátt, deyðu ungur og vertu fallegt lík" sem maður sem ég var frekar ástfangin um tíma af hafði gjarna á takteinum (honum tókst þetta fyrsta en ég sá um daginn að hann hefur alveg klikkað á hinu tvennu); ég hefði fremur vitnað í gamlan enskan fordrukkinn rithöfund og pedófíl (ef ég hefði þekkt þau ummæli hans þá): ,,Always do as you please, and send everybody to Hell, and take the consequences. Damned good Rule of Life."
En eins og ég sagði einhverntíma, sjálf var ég alltaf betri í að gera eins og mér sýndist en taka afleiðingunum. Held samt að það hafi aðeins skánað.