Jæja, ég er búin að ná í bækurnar mínar upp á Höfða. Ég var auðvitað með allt of mikið af bókum í vinnunni en ég var alltaf að koma með matreiðslubækur að heiman sem ég þurfti að nota við einhver greinaskrif eða annað og einhvern veginn var ég miklu óduglegri að fara með þær aftur. Og á tuttugu árum safnast töluvert saman. Svona eins og tuttugu kassar ...
Ég er allavega harðákveðin í að næst þegar ég flyt verð ég orðin svo gömul að ég hef löglega afsökun til að láta aðra sjá um allt vesenið. Ekki þar fyrir, ég hef fengið hellingsmikla hjálp núna.
Ég á eftir eina flutningatörn, sennilega á fimmtudaginn. Og svo þarf ég að fara að koma öllu fyrir, en það er nú skemmtilegi parturinn. Reyndar fór ég niður eftir í dag og tók upp úr svona tuttugu kössum. Allavega búin að koma barnum mínum upp. Eins og ég er alltaf að hamra á þessa dagana, maður verður að hafa forgangsröðina á hreinu.
Og síðan þarf ég að leggjast í mublukaup. Og fá einhvern til að hjálpa mér að bera nýju húsgögnin upp stigana.
Eins og ung frænka mín sagði þegar hún var að hjálpa til við flutningana á sunnudaginn:
-Hvað er þetta eiginlega með hana Nönnu og þriðju hæð?
Maður spyr sig.