Enginn gulur Bragi meir
Ég var að fá mér eina svona. Nema bara fagurgræna.
Eiginlega ekki hægt annað þegar maður á næstbesta kaffismakkara í heimi fyrir tengdason. Plús auðvitað kaffibarþjón fyrir einkason.
Það er enn verið að sprengja á fullu.
Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu
Ég var að fá mér eina svona. Nema bara fagurgræna.
Mér leiðast sprengingar og svoleiðis læti feiknalega mikið. Pirrar mig svosem ekkert að ráði en mér finnst þetta bara leiðinlegt og hef aldrei séð fídusinn í þessu neitt sérstaklega.
Þegar settar voru upp gler-rennihurðir fyrir básana Bræðraborgarstígsmegin hér á ritstjórninni skömmu fyrir jól þurfti að losna við eitthvað af lausum glerskilrúmum (þessum af Suðurlandsbrautinni, svona fyrir þá sem þekktu til hjá Eddu) og tveimur af þeim var rennt inn í básinn minn, við hliðina á því sem þar var fyrir og skermaði mig frá Þórunni Hrefnu. Ekki að ég hafi þurft svo öfluga vörn frá henni, þetta var bara til bráðabirgða.
... hún fer vel með silfrið sitt (lesist með rödd Jóns Múla). Fyrst ég hef verið að ræða gamlar sjónvarpsauglýsingar, þá má geta þess að þetta var ein fyrsta ef ekki alfyrsta auglýsingin sem ég sá í sjónvarpi. Í desemberbyrjun 1968. Ásamt auglýsingu frá Alaska, gróðrarstöðinni við Miklatorg.
Ég var að skoða fiskuppskriftir af ýmsu tagi á netinu (jájá, það er kominn janúar) og undir fyrirsögninni Healthful ways to cook fish (eða eitthvað álíka) fann ég uppskrift að soðnum þorski - allt í lagi með það nema í uppskriftinni, sem var fyrir um kíló af þorski, voru notuð um 225 g af sykri og 340 g af smjöri - fiskurinn var semsagt fyrst soðinn í sykurvatni, svo grillaður löðrandi í smjöri og borinn fram með miklu paprikusmjöri.
Ókei, ég sé að ég verð ekki í rónni fyrr en ég er komin með það sem er til umfjöllunar í kommentunum við þessa færslu á hreint. Man ekki einhver eftir þessu?
Vesalings Boltastelpan var í aðgerð í morgun vegna þrálátrar skútabólgu; ég veit reyndar ekki nákvæmlega í hverju aðgerðin fólst en sennilega var verið að víkka göng sem liggja í kinnholur og nefholur og allar þessar holur (skúta) og moka út þeim þremur mismunandi tegundum af sýklum sem þar höfðu hreiðrað um sig og fundust í rannsóknum fyrir jól. Sennilega hefur leiðin legið í gegnum nefið á barninu, allavega kvartar hún yfir eymslum í nebbanum, þó ekki sérlega miklum og er ekki verr haldin en svo að hún situr nú heima og spilar tölvuleik.
Gleðilegt nýár, gott fólk, og þakka ykkur fyrir allt gamalt og gott.
Ég held ég hafi byrjað flesta áramótapistlana mína á einhverju tali um að árið hafi verið skrítið, breytingar og óvissa og eitthvað slíkt. Kannski var ég bara búin að vera föst í sama farinu alltof lengi en það er allavega komið að því að mér eru hættar að finnast breytingar skrítnar og mér stendur orðið á sama um óvissu. Það fer allt einhvernveginn á endanum. Never mind where you go, there you are.
Ég er ekki fyrr búin að setja inn kalkúnasósuuppskrift sérstaklega fyrir gúglara sem eru að leita að slíku en allt í einu fólk fer að koma inn á bloggið mitt í lange baner (jæja, allavega tveir með stuttu millibili) að leita að einhverju sex-tengdu. Ég ætla samt ekki að fara að setja inn kynlífslýsingar af því tilefni.
Ég sé að annarhver maður sem gúglar sig inn á bloggið mitt í dag er að leita að kalkúnasósu. Þar er hins vegar engin uppskrift - fyrr en núna, það er best að bæta úr þessu.
Jæja, brúðkaupsveislan er frá og ég held hún hafi bara tekist ágætlega. Maturinn meina ég, en mér sýndist allt hitt ganga ljómandi vel líka. Allavega voru brúðhjónin frekar hamingjusöm að sjá þegar ég kvaddi þau undir miðnættið.