(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

14.2.03

Svolítil pása frá eldhússtörfunum núna, ég var rétt að setja tvö lambalæri í ofninn og við erum þegar búin að ljósmynda fjóra lambakjötsrétti. Þetta er fyrir veislublaðið okkar og ég ætlaði að fara að skrifa háfleyga grein um páskalambið þegar ritstjórinn minnti mig á að páskarnir eru svo seint í ár að það á eftir að koma annað blað fyrir páska. Svo að nú verð ég að finna eitthvert annað þema fyrir greinina.

Ljósmyndarinn fékk sér af framhryggjarvöðvanum (hvern andskotann á maður að kalla þetta? Það var kallað lamba prime í búðinni en ég er ekki sátt við það. Framhryggjarfile er skömminni skárra en ekkert þó að ráði) - hvað sem því líður, hann fór að rifja upp þegar hann borðaði kíló af kjöti í einu og ég held að það hafi átt að vera yfirlýsing um að hann gæti vel hugsað sér að borða kíló af þessu. (Svo getur vel verið að ég sé að ljúga einhverri kjötgræðgi upp á Gísla sem hann er blásaklaus af. Ég var með hausinn hálfpartinn inni í ofninum þegar hann var með þessar yfirlýsingar og hann getur vel hafa sagt eitthvað allt annað. Viftan á fullu og ég rétt að því komin að missa ofnskúffu með appelsínugljáðum innralærvöðva ofan á ristarnar á mér.)

Maturinn verður svo allur borinn fram á þorrablóti Fróða í kvöld, fyrir þá sem ekki borða þorramat. Þeim gæti fjölgað eitthvað við að sjá réttina. Annars skil ég ekki tilganginn í því að vera að hafa þorrablót þegar helmingurinn af gestunum vill ekki þorramat.

En við Guðrún Hrund erum að hugsa um að stinga út lítil sæt hjörtu úr hrútspungunum fyrir fólk sem vill rómantíska stemmningu á Valentínusardaginn.

|

13.2.03

Af hverju gerum við ekki eitthvað svona? Fyrst Bandaríkjamenn eru að kaupa upp öll hrútseistun, ætli þeir vilji þá ekki líka pungana sjálfa?

Annars finnst mér, þegar ég hugsa málið, að ég hafi einhvers staðar í minjagripaverslun séð pyngjur úr hrútspungum. (Tíðkaðist ekki líka einhvern tíma að sauma úr þeim smábarnaskó, mig minnir að ég hafi heyrt það?) Kannski væri hægt að auglýsa þá sem ,,small romantic gifts with great sentimental value" eins og þessi ástralska Scrotum Gift Shop gerir.

Reyndar er körtudótið sem boðið er upp á í annarri deild þessarar netverslunar ennþá athyglisverðara. Mig langar í körtulyklahring.

|

Það er eins gott að passa að maður sulli ekki niður kókinu sínu á vitlausum stöðum. Allavega ekki í Bandaríkjunum.

Það er fleira skrítið í kýrhausnum í Bandaríkjunum. Ef ellefu ára krakki hérlendis laumaðist í tölvuna hjá kennaranum sínum og breytti einkunnunum sínum, þá hugsa ég að ýmsum þætti hann bara nokkuð lunkinn að bjarga sér. Krakkinn fengi náttúrlega skammir og yrði sjálfsagt settur í eitthvert straff í skólanum. Í Bandaríkjunum var ellefu ára strákur tekinn fastur fyrir þetta og kærður fyrir ,,offense against intellectual property". Og gæti lent á betrunarheimili.

|

Detta mér nú allar dauðar lýs ... Þetta er bók sem ég vissi ekki að ég hefði skrifað.

|

12.2.03

Ég minntist á það fyrir nokkrum dögum hvaða erfiðleikar væru samfara því að leita að bók þegar maður man bara að hún heitir Food. Ég lenti líka í vandræðum þegar ég var að leita hjá Bookfinder að bók sem heitir Mmmmm. Ég fékk aldrei neina svörun og komst að því seinna að ég var alltaf með einu m-i of margt. Eftir það gekk betur að finna eintak. Reyndar gáði ég að bókinni áðan og þá fann Bookfinder bara eitt eintak, kilju á 200 dollara. Ég fór að hugsa um hvað ég gæti þá fengið fyrir innbundnu frumútgáfuna sem ég á en svo mundi ég að þetta er ex-lib eintak, að vísu þokkalega útlítandi en rækilega stimpla sýslubókasafni Multnomah County, hvar í andskotanum sem sú sýsla er, og útlánakortið meira að segja enn límt í bókina. Hún hefur verið lánuð út tvisvar frá því að hún var keypt til safnsins í desember 1972, það er að segja í nóvember 1981 og ágúst 1994, svo að ég skil nú alveg að safnið skuli hafa selt hana. En ex-lib bækur eru yfirleitt ekki í háu verði svo að líklega fengi ég enga 200 dollara fyrir hana.

Þetta er bráðskemmtileg bók, full af skopteikningum, sérkennilegum ljósmyndum, mörgum fínum uppskriftum og texta sem einhver sagði að væri ,,part whole-grain and whole-earth, part hippie- counterculture, part international, and part tongue-in-cheek," en ástæðan fyrir því hvað bókin er eftirsótt er trúlega sú að þetta er fyrsta bók höfundarins, skrifuð á hippaárum hennar. Ruth Reichl er núna ritstjóri bandaríska matarblaðsins Gourmet og áður mjög þekktur veitingahúsagagnrýnandi. Og hér er uppskrift úr bókinni:

Kókosvöfflur með karamellusósu

200 g hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
1 msk sykur
3 egg, aðskilin
350 ml mjólk
100 g smjör, bráðið
100 g kókosmjöl


Hveiti, lyftidufti og sykri blandað saman. Eggjahvíturnar þeyttar með mjólkinni og hrært saman við. Smjöri og kókosmjöli hrært saman við og að lokum eru eggjahvíturnar stífþeyttar og blandað gætilega saman við með sleikju. Vöfflujárnið hitað og vöfflurnar bakaðar þar til þær eru ljósbrúnar og stökkar.

Karamellusósa:

300 g púðursykur
100 g smjör
125 ml rjómi
1 tsk vanilludropar


Púðursykur, smjör og rjómi sett í pott, hitað rólega og hrært nærri stöðugt þar til allt er bráðið og samlagað og sósan farin að þykkna. Tekið af hitanum og vanilludropunum hrært saman við. Borið fram með vöfflunum. Og örugglega ekkert verra að hafa ís með en ég hef ekki prófað það.

|

Mér finnst að þegar ég kem heim þreytt eftir að hafa verið á fullu í eldhúsinu frá því í morgun (en að vísu í betra skapi en efni stóðu kannski til, en það er bara út af vínkynningunni), þá eigi einhver að vera heima til að hella upp á kaffi handa mér á meðan ég er að horfa á Bráðavaktina. Ónei, efnafræðistúdentinn þurfti endilega að fara á kóræfingu og skildi vesalings móður sína eftir kaffilausa. Ég get svosem bjargað mér sjálf með kaffiuppáhellingu. En stundum vill maður fá smáþjónustu.

Það stendur annars hugsanlega til að drengurinn fari til Filippseyja í haust. Ég hélt reyndar að menn færu bara þangað til að sækja sér konu en það er nú ekki erindið hjá honum, hann er ekkert á flæðiskeri staddur. Nei, kórinn er skilst mér að fara þangað. Gat valið um Filippseyjar og Barselóna að ég held. Ég hefði líka valið Filippseyjar, ekki að mig langi þangað endilega svo mikið en maður getur jú alltaf farið til Barselóna.

|

Svona eldhúsdagar geta verið ansi erfiðir, ég var á þönum í allan dag við að baka fimm tegundir af brauði (reyndar sex en hætti við að láta ljósmynda eina, var ekki sátt við útlitið) og svo á eftir fimm mismunandi soufflé. Það er minnsta mál í heimi að baka soufflé. Það er hins vegar stórmál að ljósmynda það - það er að segja, tímaramminn er svo lítill. Það þarf allt að vera tilbúið og svo er bara souffléið tekið út ofninum, hlaupið með það inn í stúdíó, beint á diskinn, og smellt af í gríð og erg, því að soufflé getur verið ansi fljótt að falla. Það er að vísu jafngott á bragðið eftir sem áður en myndirnar yrðu ekkert sérlega flottar.

Þetta tókst samt allt stórslysalaust. Fyrir utan að það:

kviknaði í ofninum
flís sem við höfum notað fyrir pottaundirlag sprakk með látum þegar ég setti vel heita pönnu á hana
setti eitt souffléið í form, stakk þeim í ofninn, kallaði ,,tólf mínútur" í ljósmyndarann og stílistann, ætlaði að fara að gera næsta soufflé, en rak þá skyndilega augun í skál með þeyttum eggjahvítum sem stóð á borðinu. Ha? Hvaða eggjahvítur voru þetta? Úbbs ... opnaði ofninn, reif souffléformin út, hellti innihaldinu úr þeim aftur í skálina, blandaði eggjahvítunum í skyndi saman við (varlega samt), aftur í formin og inn í ofninn, og kallaði fram í stúdíó: ,,Tólf mínúturnar byrja sko NÚNA."

Á eftir fór ég á kynningu á spænskum vínum á Holtinu og smakkaði á milli tuttugu og þrjátíu vín, þar á meðal nokkur gömul og góð (elsta frá 1964). Ég átti það alveg skilið.

|

11.2.03

Svo ég haldi nú áfram með saltfiskinn, þá er hér uppskrift sem er að mestu úr matreiðslubók Soprano-fjölskyldunnar, The Sopranos Family Cookbook, as compiled by Artie Bucco. Þessi er úr kaflanum The Soprano Family Tradition, þar sem Corrado Soprano (Junior) er að rifja upp hvað mamma hans - langamma Soprano - eldaði í gamla daga.

Langamma afvatnaði fiskinn sjálf í einn til tvo sólarhringa. Ég geri samt ráð fyrir að keyptur sé afvatnaður saltfiskur því hér nennir varla nokkur maður að gera það lengur. Þegar ég var krakki var fiskurinn oftast afvatnaður úti í læk og þá þurfti ef ég man rétt að leggja spýtu yfir fötuna svo að hrafninn kæmist ekki í hann. Það er samt hugsanlega tóm della, helmingurinn af bernskuminningum mínum reynist hreinustu hugarfóstur þegar systkini mín fara að krukka í þær. Þau muna flesta hluti betur en ég.

Hvað sem því líður, þá er uppskriftin hér. Þetta er eiginlega bara saltfiskur í pitsusósu. Enda er Sopranofjölskyldan frá Napólí (eða nágrenni), upprunaborg pitsunnar. Fólk sem ekki er á kolvetnakúr borðar sennilega kartöflur með. En það má líka hafa salat.

Saltfiskur að hætti pitsubakarans
(Baccalá pizzaiola)

1 kg saltfiskur, afvatnaður og skorinn í stykki
6 msk ólífuolía
2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir mjög smátt
2 dósir tómatar, saxaðir
1 tsk oregano, þurrkað
nýmalaður pipar
salt
nokkur fersk basilíkublöð, rifin


Ofninn hitaður í 200°C. Vatn hitað að suðu í potti, fiskurinn settur út í og látinn malla við hægan hita í um 10 mínútur en þá er hann tekinn upp með gataspaða, látinn kólna, og síðan er hann roð- og beinhreinsaður. Á meðan fiskurinn sýður eru 4 msk af olíunni hitaðar í potti með hvítlauknum og látið krauma við meðalhita þar til hvítlaukurinn er orðinn dálítið gullinn. Tómatarnir settir út í ásamt leginum úr dósunum, oreganoinu og pipar og salti. Hitað að suðu og látið malla í um 20 mínútur. Þá er basilíkunni hrært saman við. Dálitlu af sósunni hellt í eldfast fat, nægilega stórt til að rúma fiskinn í einföldu lagi. Fiskstykkjunum raðað ofan á, afganginum af sósunni hellt yfir, og 2 msk af olíu dreypt yfir allt saman. Sett í ofninn og bakað í um hálftíma.

|

Ónefndur karlmaður breyttist í konu. Hmmm.

|

Þið eruð nú sjálfsagt búin að sjá þennan spilagaldur einhvern tíma. En kanínan er allavega skondin.

Þá dettur mér í hug ...

Ég sá viðtal við kanínubónda í sjónvarpinu á dögunum. Veit einhver hvort kanínukjötið frá honum fæst í einhverri verslun hér, eða þarf maður að panta það? Og veit einhver hvort geitakjöt fæst einhvers staðar núna? Ég keypti það í Nóatúni fyrir tveimur þremur árum en hef ekki séð það þar síðan.

|

Nú er búið að tilkynna tilnefningar til Óskarsverðlaunanna. Ég hef ekki séð eina einustu mynd af þeim sem þarna eru en það er nú ekkert skrítið í ljósi þess að það eru sennilega þrjú ár síðan ég fór seinast í bíó. Samt er ég ekki í neinu bíóverkfalli, þetta er bara einhvernveginn ekki inni í forritinu hjá mér.

Ég er reyndar alltaf á leiðinni að sjá Turnana tvo en það verður örugglega ekkert af því ... Kannski er ég bara komin á konfektpokaaldurinn. Reyndar er ég ekkert viss um að konfektpokar fáist ennþá en það var allavega þannig að þegar ákveðin tegund af myndum (les: kellingamyndir) var sýnd, þá þurftu bíóstjórar að birgja sig upp af konfektpokum, sem annars seldust nákvæmlega ekki neitt. Þeir runnu út þegar myndir eins og Gestaboð Babette voru í bíó. The Hours er líklega einmitt konfektpokamynd.

|

Eitthvað er Rómarveldisserían sem sjónvarpið er að sýna um þessar mundir að vekja áhuga yngri kynslóðarinnar, sýnist mér. Allavega er, í teiknimyndasögublaðinu sem Eldfjallið gefur út í félagi við tvær bekkjarsystur sínar (Sauðargæran er líka skrifaður fyrir blaðinu en framlag hans mun vera í lágmarki, hann er svona ,,silent partner") - þar er í nýjasta tölublaðinu smásagan Germanicus og Kaligúla. Ekki veit ég alveg hver þeirra þremenninganna á heiðurinn af sögunni en ættfræðin er ekki alveg á hreinu, Germanicus og Kaligúla eru þarna orðnir bræður og eru húðskammaðir af móður sinni fyrir að meiða hvorn annan. Klögumálin ganga á víxl en á endanum kemur upp úr dúrnum að þetta var allt í plati og enginn meiddi neinn. Svoleiðis gekk það víst ekki fyrir sig í Róm. Og ég sé ekki betur en öll fjölskyldan sé með köflóttar jólasveinahúfur.

|

10.2.03

Uppskrift dagsins, og það þýðir ekki að ég ætli að fara að vera með eina uppskrift á dag. Bara þegar ég er í skapi til þess.

Ég sagði í gær að efnafræðistúdentinn væri ekkert fyrir saltfisk. Ég get aftur á móti alveg gefið honum nætursaltaðan fisk, grænsaltaðan eins og hann heitir hjá sumum þjóðum nema ég sé að rugla þeim mun meira. Og það er ágætt, því sjálf er ég mun meira fyrir nætursaltaða ýsu en venjulega, finnst hún miklu bragðmeiri og betri. Ég skola hana stundum snöggvast í köldu vatni áður en ég matreiði hana, ekki síst ef ég ætla t.d. að sjóða hana í sósu eins og í þessari uppskrift sem hér kemur, en það er ekki nauðsynlegt.

Maísinn passaði nokkuð vel hér en það mætti nota ýmislegt grænmeti í staðinn. Gerið mér bara einn greiða: Ekki kalla maísinn gular baunir. Þetta eru ekki baunir. Gular baunir er allt annað. Ég var að leita að gulum baunum í Nóatúni um daginn og hitti afar hjálplegan ungan starfsmann sem teymdi mig framhjá nokkrum rekkum og benti hróðugur á maísdósir. Gulu baunirnar sem ég hafði verið að spyrja um voru aftur á móti hálfum metra frá þeim stað sem hann stóð á þegar spurningin var borin fram.

Nætursöltuð ýsa með tómötum og maís

7-800 g nætursöltuð ýsuflök
1 laukur, saxaður smátt
2-3 tómatar, þroskaðir
3 msk hveiti
1 tsk paprikuduft
1 tsk kóríanderfræ, möluð
1/2 tsk túrmerik (má sleppa)
nýmalaður pipar
2 msk olía
300 g maískorn, fryst
250 ml matreiðslurjómi
e.t.v. svolítið salt


Fiskurinn roðflettur, beinhreinsaður og skorinn í bita. Laukurinn saxaður fremur smátt og tómatarnir helmingaðir, fræhreinsaðir og skornir í ræmur. Hveiti, paprikudufti, kóríander, túrmeriki og pipar blandað saman og fiskinum velt upp úr blöndunni. 1 msk af olíu hituð á pönnu (helst húðaðri) og laukurinn látinn krauma í henni við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til hann er meyr. Tekinn upp með gataspaða og settur á disk. 1 msk af olíu bætt á pönnuna, hitinn hækkaður og fiskurinn steiktur í 1-2 mínútur á annarri hliðinn. Snúið, tómötunum bætt á pönnuna og síðan er afganginum af hveitinu hrært saman við laukinn og hann settur aftur á pönnuna ásamt maísnum. Rjómanum hellt yfir, hitað að suðu og látið malla í örfáar mínútur, eða þar til fiskurinn er rétt soðinn í gegn og grænmetið heitt. (Einnig má taka fiskinn upp með spaða og setja á fat en sjóða sósuna og grænmetið í nokkrar mínútur í viðbót.) Sósan smökkuð til með pipar og e.t.v. salti. Borið fram t.d. með salati.

|

Ég hringdi í Lánasjóðinn áðan til að athuga hvað ég ætti eftir að borga lengi af námsláninu mínu, þetta er gamalt V-lán og eftirstöðvar falla niður eftir 20 ár en ég var ekki viss hvenær greiðslur höfðu hafist. Þá frétti ég að ég hefði borgað mína síðustu greiðslu í desember og lánið væri hér með úr sögunni. Sem er náttúrlega ljómandi ágætt því þar með aukast ráðstöfunartekjur mínar um sirka 70 þúsund á ári. Með sama áframhaldi verð ég orðin skuldlaus fyrir sextugt og get þá væntanlega farið að lifa í vellystingum praktuglega eins og ég á skilið.

Mér skilst að það hafi verið óveður í dag en það sneiddi gjörsamlega hjá mér. Þegar ég gekk í vinnuna í morgun var varla nema stinningsgola og þegar ég var á heimleið áðan var rjómaveður, hlýtt og stillt. En reyndar er ég ekki sérlega næm fyrir veðri og það hefur komið oft fyrir að mamma hefur hringt að norðan af því að það var talað um óveður í Reykjavík í útvarpinu og ég segi: ,,Ha, veðrið? Ja, ég tók nú ekkert eftir því ... jú, það er kannski dálítið hvasst." Eða eitthvað svoleiðis. Þá eru kannski tré búin að vera að brotna og plötur að fjúka allt í kring. Ef ég hefði verið uppi fyrr á öldum væri ég löngu orðin úti af því að ég hefði anað út þegar allir aðrir hefðu séð að stórhríð væri í aðsigi. Og eins og ég hef áður sagt, þá gleymi ég yfirleitt að kanna veðrið áður en ég fer út og klæði mig eftir veðrinu daginn áður.

|

Samkvæmt frétt í Mogganum eru yfir tvær milljónir múslima í Saúdi-Arabíu. Ég sem hélt að það væru yfir 23 milljónir múslima í landinu. En Mogginn hefur ævinlega rétt fyrir sér og hverrar trúar eru þá allir hinir?

|

9.2.03

Og nú er ég komin þar í bókinni sem Pamplemousse er að hringja í hjálpartækjaverslun í París til að panta sér uppblásna rafknúna kynlífsdúkku (karlkyns) með tréfætur. Mig minnir að hún eigi eftir að springa í loft upp þegar hæst stendur ...

|

Það á að vera eitthvert skítaveður á morgun. Og ég fór að óska þess að ég væri komin á suðlægari slóðir, enda var ég að fletta ferðaskrifstofubæklingum áðan - ekki að ég sé á leiðinni neitt en maður skoðar nú samt. Og þegar ég fór að hugsa um Miðjarðarhafið, þá var það fyrsta sem mér datt í hug saltfiskur. Sem er kannski skrítið því að hann er náttúrlega meira og minna kominn frá Íslandi. Og svo mundi ég eftir þessari saltfiskuppskrift.

Saltfiskur er matur sem ég fæ ekki eins oft og ég mundi vilja af því að ég er í minnihluta hér á heimilinu. - Já, ég veit, við erum bara tvö. Ég er samt oftast í minnihluta ef við erum ósammála um mat. En hér er allavega uppskrift að frekar góðu maríneruðu saltfisksalati sem má hafa sem forrétt eða setja á hlaðborð. Það er að vísu skilyrði að hafa góða tómata og þeir eru ekki auðfengnir akkúrat núna. En uppskriftin þolir alveg geymslu. Þetta er heldur ekki uppskrift sem passar við íslenskan vetur en hún er góð í sólskini.

Franskt saltfisksalat

350 g satfiskur, afvatnaður
1 rauðlaukur, saxaður smátt
1 stór hvítlauksgeiri, saxaður smátt
1 msk hvítvínsedik
3 msk ólífuolía
5-6 rauðir og vel þroskaðir tómatar, helst plómutómatar
2 rauðar paprikur
nýmalaður pipar
salt


Saltfiskurinn skorinn í mjóar ræmur. Rauðlauk, hvítlauk, ediki og 1 msk af olíu blandað saman í skál. Fiskurinn settur út í og blandað vel. Plast breitt yfir og látið standa í kæli í a.m.k. 6 klst, eða yfir nótt. Ofninn hitaður í 160 gráður. Tómatarnir skornir í helminga og fræin skafin úr þeim með teskeið. Raðað í eldfast fat og skurðflöturinn látinn snúa upp. Ólífuolíu dreypt yfir og kryddað með svolitlum pipar og salti. Sett í ofninn og bakað í um 1 klst. Þá er fatið tekið út en grillið í ofninum hitað. Paprikurnar skornar í fjórðunga og fræhreinsaðar. Fjórðungunum raðað á grind með hýðið upp og þeir grillaðir þar til hýðið er orðið svart. Settir í poka og látnir bíða smástund en síðan er hýðið plokkað af og paprikan skorin í mjórri ræmur. Tómatarnir og paprikuræmurnar sett í skálina með saltfiskinum, blandað vel og látið standa í kæli í nokkrar klukkustundir. Gott að bera fram með þessu brauð og ekki verra að það sé heitt.

|

Efnafræðistúdentinn fékk ýmislegt áhugavert í afmælisgjöf, allt frá einhverju rótsterku kínversku brennivíni sem er þekktast fyrir það að hafa verið aðalgjaldmiðill í viðskiptum norðurkínverskra og sovéskra landamæravarða fyrr á tíð yfir í Legókubba. Sem hann er þegar búinn að byggja úr, en brennivínið er ósnert.

Ég er búin að komast að því að þegar maður þarf að leita að bók á amazon.co.uk og man bara að hún heitir Food, en man hvorki undirtitil né höfund, þá fær maður upp 32.000 mögulega titla. Og ég nenni ekki að fletta í gegnum þá alla.

Þegar ég les um eitthvað annað en matargerð núorðið, þá eru það oftar en ekki glæpareyfarar. En það er svosem ekkert verra að þeir tengist eldamennsku og ég varð voða kát þegar ég fann þennan lista áðan. Reyndar á ég slatta af svona bókum en það er líka töluvert sem ég vissi ekki af.

Reyndar rakst ég á listann í framhaldi af því að ég fór að lesa aftur gamla uppáhaldsbók um Monsieur Pamplemousse eftir að hafa séð minnst á hana í grein á Múrnum. Bækurnar um matargagnrýnandann og fyrrverandi Sûreté-lögguna Pamplemousse eru skrifaðar af Michael Bond, höfundi bókanna um björninn Paddington, og Pamplemousse sjálfur er dálítið sambland af Paddington og Clouseau. Kannski meiri Clouseau. Akkúrat núna er ég komin þangað sem þorpslöggan grípur Pamplemousse inni á kvennaklósettinu á gistihúsinu í annað sinn sömu nóttina. Í fyrra skiptið var hann þar allsber að fela sig fyrir eiginkonu meistarakokksins, sem hafði ráðist á fótleggina á honum (sem hún hélt að væru tréfætur) með sandpappír eftir að hafa átt æstan ástaleik við kertastjaka sem hún tók feil á og hélt vera ákveðinn líkamshluta á Pamplemousse (flókið, en svona var þetta). Í seinna skiptið er hann þar klæddur í náttkjól af sömu konu og með stingsög í höndunum. Mig minnir hins vegar að það sé enginn drepinn í bókinni. Mannshausinn sem veltur út úr svínsblöðrunni í upphafi bókar er úr gúmmíi.

Hmm, líklega er þetta nú töluvert meiri Clouseau en Paddington.

|

Það er víst of seint að taka þátt í þessum leik í ár. En hann hefur örugglega verið fín afsökun fyrir fólk sem þarf á annað borð afsökun til að detta rækilega í það. Telja hvað oft GW segir nukular og axis of evil og stöff.

Ég held að afmælispartígestirnir séu að tínast út smátt og smátt. Þau hafa hegðað sér vel, eða ég hef allavega ekki orðið vör við annað. Sungið dálítið, en þetta er mestallt kórfólk og syngur fallega, svo ég kvarta ekki.

|