Síðasti vinnudagurinn var í dag.
Ég er samt ekki hætt, er að vinna hjá Birtíngi til 1. nóvember, en ég á inni það mikið orlof að ég mæti ekki aftur. Og eins og áður hefur komið fram byrja ég orlofið á því að bregða mér til Spánar. Enda eins gott; íbúðin í rúst en í Jerez bíður lúxushótel með sundlaug.
Og allt sérríið náttúrlega.
Ég kvaddi vinnufélagana með því að steikja meiri kleinur, þær gerðu svo mikla lukku í gær. Þurfti að steikja tvo skammta því sá fyrri var fljótur að klárast. Segi ekki að menn hafi grátið brottför mína í hverju horni en einhverjir sáust þerra tár af hvarmi - jæja, kannski voru þeir bara að þurrka sér um munninn eftir allt kleinuátið.
Ég á nú eftir að koma aftur, til dæmis til að sækja þessa tuttugu kassa af bókum sem ég fékk að geyma þar til ég flyt á Grettisgötuna eftir svona þrjár vikur til að spara mér tvíverknað í flutningum. Nema auðvitað ef Birtíngur flytur skyndilega, þá verð ég náttúrlega að bregða við og sækja kassana. (Og kæru vinnufélagar, ef skyldi nú koma til skyndiflutninga á meðan ég er í Andalúsíu, þá kannski passið þið upp á kassana mína ...)
Ég kvaddi heldur ekki, allavega ekki að fyrra bragði. Mér finnst erfitt að kveðja. Ekkert mál kannski að kveðja fólk sem maður hefur unnið með í tvo til þrjá mánuði og veit varla eða ekki hvað heitir eins og raunin er með meirihlutann af starfsfólkinu núna. En það er erfitt að kveðja fólk sem maður hefur unnið með árum saman og lítur á sem vini sína. Ég hef lent í því allt of oft, bæði núna í sumar og ekki síður fyrir fjórum eða fimm árum. Betra að sleppa því og senda góðar hugsanir í staðinn.
En ég kvaddi allavega með kleinum. Og ef þið misstuð af kleinunum, þá kveð ég hér með. Í bili.