Síldargafflar og kavíarskálar
Ég fékk tvo tölvupósta samtímis rétt í þessu. Annar var um að ég hefði ekki unnið silfurhúðuð salatáhöld sem ég var að bjóða í á Ebay - sem var bara hið besta mál því að þau fóru á hærra verði en ég var tilbúin að borga og auk þess er ég nýbúin að reka augun í önnur flottari sem mig langar meira í. Hinn var um að ég hefði unnið milljón evrur í hollenska ríkislottóinu. Ég er að hugsa um að láta bara leggja það inn á Paypal-reikninginn minn svo að ég geti haldið áfram að kaupa mér eitthvað fallegt á Ebay. Ég er nefnilega að bæta við ættarsilfrið þessa dagana.
Líklega einmitt kominn tími til að ég fari að vinna alminlega vinnu aftur. Hætti að hanga á Ebay og skoða silfurmuni. Hlakka samt til að fá í hendur það sem ég er þegar búin að kaupa, þar á meðal ósköp laglegan síldargaffal (herring server). Silfurhúðaðan með perlumóðurskafti. Það verður sko aldeilis serveruð síld hér á bæ þegar hann er kominn í hús ...
Svo náttúrlega bráðvantar mig flotta silfraða kavíarskál. Svona kúlulaga skál á þremur eða fjórum fótum sem er opnuð með því að renna efri hluta kúlunnar undir neðri helminginn ... Reyndar rifjaðist upp fyrir mér að slíkt þing var til á mínu bernskuheimili en ég held að það hafi enginn fattað að þetta var kavíarskál. Svo má nota þetta sem smjörskál líka ef kavíar er ekki daglega á borðum.