(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

2.7.04

Ég gekk út í bæ áðan, fyrst eftir Hólaveginum sem ég gekk oft á dag þegar ég var krakki því að það var leiðin í barnaskólann. Í rauninni er ekki svo margt sem hefur breyst miðað við að það eru 35 ár síðan. Jú, þetta er ekki lengur malarvegur og það er mun meiri gróður en var. Pippi og Erling eru ekki lengur á bak við búðarborðið í Tindastól; þar er apótekið núna. Krakkarnir í unglingavinnunni eru ekkert orðin röskari en þau voru þegar ég var þar, nema nú eru þau ekki lengur að þykjast vera að raka möl. Það sést mun minna af möl en áður.

Eitt fannst mér samt áberandi; engir krakkar úti að leika sér. Á svona sumardegi var allt fullt af krökkum úti. Kannski eru engir krakkar hér niðri í bæ lengur. Kannski eru krakkarnir uppi á hæðum (þar sem hét ,,nýja hverfið" fyrir 30 árum) enn að leika sér í fallin spýtan, sto, yfir, 1-2-3-4-5 Dimmalimm, einn tveir í flösku (eða var það eitur í flösku? ég get svarið að ég var aldrei viss), eltingaleik, vink vink í pottinn, parís, stórfiskaleik, hlaupa í skarðið ... Kannski ekki samt. Kannski kann enginn þessa leiki lengur.

Fyrir utan búðina hjá Bjarna Har hitti ég framkvæmdastjóra landsmóts ungmennafélaganna, sem verður haldið hér um næstu helgi. Hann sat í sætinu fyrir framan mig í barnaskóla. Hann spurði hvort ég væri komin til að keppa í pönnukökubakstri á landsmótinu en snerist svo hugur og fór að fala mig sem dómara.

|

Það er svosem ekki nokkur vafi á því hver er aðalsykursvelgurinn. Það var boðið upp á vöfflur með kaffinu áðan og karl faðir minn og Boltastelpan mokuðu bæði rabarbarasultu á vöfflurnar sínar, hann þó sýnu meira, og stráðu svo drjúgum skammti af sykri þar yfir. Barnið hefur náttúrlega erft þetta frá langafa sínum.

Ættarmótið hefst í kvöld og afgangurinn af fjölskyldunni er á leiðinni norður eða leggur af stað innan tíðar. Veðrið er ... tja, veit ekki alveg. Sól og norðanátt, sennilega mun hlýrra framfrá en hér úti við sjó. Vonandi. Ég reikna með að tjalda í kvöld en læt ráðast hvort ég gisti í tjaldinu í nótt.

|

1.7.04

Blessuð börnin eru búin að leggja prumpblöðrurnar til hliðar í bili og komin með vatnsblöðrur í staðinn. Það er bara ein búin að springa á mig.

Var einhver að tala um friðsælt líf úti á landi?

|

Komin norður í Skagafjörð ásamt Boltastelpunni (nei, við erum ekki alveg búnar að gefast upp hvor á annarri eftir ferðalagið um daginn) og erum hér náttúrlega í góðu yfirlæti. En veðrið mætti vel vera betra, vona þó að það verði ekki sérlega skítlegt á ættarmótinu um helgina. Allt í lagi reyndar meðan snjóar ekki (einu sinni minnir mig að ættarmóti í minni fjölskyldu hafi verið frestað af því að það var snjór á tjaldstæðinu, síðustu helgina í júní).

Systursonur minn fimm ára er hér líka og það fer afskaplega vel á með þeim frændsystkinunum. Ég er búin að setjast þónokkrum sinnum á prumpblöðrur í dag, börnunum til mikillar skemmtunar. Það sem maður gerir fyrir þessi blessuð börn ...

Skoðaði nýju íbúðina sem gömlu hjónin eru að fara að flytja í seinna í mánuðinum og leist mjög vel á. Ekki síst útsýnið inn fjörðinn. Þótt ég kannski taki ekki alveg undir með Önnu ömmusystur minni, sem óskaði sér þess að deyja í Skagafirði af því að þaðan væri svo stutt upp í himnaríki.

|

30.6.04

Eldra barnabarnið mitt sat hér áðan og hakkaði í sig sykurpúða með kanelsykri. Er hægt að vera meiri sykurgrís?

Minnir á Calvin og Hobbes: Calvin að gæða sér á ,,chocolate-frosted sugar bombs" og segir: ,,Actually, they're kinda bland till you scoop sugar on 'em."

|

Einn helsti guð Súmera hinna fornu hét Nanna en var reyndar karlkyns. Súmerinn Ur-Nammu, sá sem samdi elstu lögbók sem þekkt er (þremur öldum eldri en lögmál Hammúrabís) vann sér það líka til frægðar að rækta elsta matjurtagarð sem heimildir eru til um. Þar ræktaði hann meðal annars gúrkur og hélt svo mikið upp á þær að hann reisti musteri Nanna til dýrðar í þeim tilgangi að Nanna verndaði gúrkurnar. En það dugði ekki til, kannski var Nanna ekkert gefinn fyrir gúrkur.

Mér finnst gúrkur oft ágætar, allavega er ég ekki sammála Samuel Johnson, sem sagði þetta um þær: ,,Gúrku ætti að skera í snotrar sneiðar, krydda hana með pipar og ediki og henda henni síðan, því hún er einskisnýt." Efnafræðistúdentinn er hins vegar alveg á þessari línu (öfugt við systur sína og systurdóttur).

Þannig að ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við gúrkuréttina sex sem standa frammi í eldhúsi og verið var að mynda áðan. Ég er búin að fá mér það sem ég get torgað (þeir eru allir nokkuð góðir, BTW) en svo er ég að fara norður núna seinnipartinn. Gúrkuvinir á ferð um miðbæinn mega alveg prófa að banka uppá ...

|

29.6.04

Dorrit Moussaieff er að syngja í norska sjónvarpinu undir dulnefninu Rita Eriksen. Dularfullt.

|

Ég veit ekki alveg hvað er í gangi, ég var í Elko áðan og greip sjálfa mig allt í einu í því að standa fyrir framan hilluna með GSM-símunum og velta því fyrir mér hvort ég ætti kannski að fara að láta verða af því að fá mér einn svoleiðis. En svo áttaði ég mig nú.

Annars er ég sífellt að verða meira nátttröll í mínu gemsaleysi. Í gær var ég að panta mér flugfar norður á netinu og þar voru nokkrir reitir til að fylla út, sumir merktir með rauðri stjörnu og tekið fram að skylda væri að fylla út þessa reiti. Þar á meðal GSM-reiturinn en ekki reitur fyrir heima/vinnusíma. Ég lét nú slag standa og setti heimasímanúmerið í GSM-reitinn, það var ekki gerð nein athugasemd við það. En kannski kemst ég að því á morgun að allt er ógilt út af GSM-leysi mínu ...

|

Þórdís vill vita meira um hryðjuverkaskóla Ananda Marga, sem ég minntist á í kommentunum hjá Ernu. Ég er nú búin að gleyma þessu meira og minna en skal reyna að rifja það upp.

Ég tók semsagt fyrir mörgum árum viðtal fyrir löngu dautt tímarit við mann sem hefur víða komið við; ég ætla af ákveðnum ástæðum að kalla hann Finnandann (nei, þetta var ekki Andrés frændi, sem var reyndar líka í Ananda Marga en var örugglega aldrei sendur á hryðjuverkanámskeið). Viðtalið var um allt aðra hluti en jóga og terrorisma, en þar kom í samtali okkar eftir að formlegu viðtali lauk að Finnandinn fór að segja mér frá árum sínum í Ananda Marga; hann hafði eftir nokkurt uppeldi í þeim samtökum hér heima farið eða verið sendur eitthvað út í heim, ég man ekki hvert, til frekara jógauppeldis. Að nokkrum tíma liðnum hafði anarkískt eðli Finnandans komið skýrt í ljós og það var ákveðið að senda hann í þjálfunarbúðir til Mið-Austurlanda; mig minnir að hann hafi sagt mér að hann hafi ekki áttað sig á því fyrr en þangað kom að þarna var verið að þjálfa fólk í vopnaburði og sprengjugerð. Ananda Marga átti á þessum árum og á kannski enn í stríði við indversk stjórnvöld, enda flokkuð sem hryðjuverkasamtök þar í landi, og markmiðið var (skildist mér) að ráðast á indverska embættismenn heima fyrir og indverska diplómata víða um heim. (Þrír félagar úr Ananda Marga voru dæmdir fyrir sprengjuárás í Ástralíu 1978 en ef ég man rétt voru þeir seinna sýknaðir.)

Finnandinn gekk inn í þetta af lífi og sál og var að eigin sögn talinn efnilegur stríðsmaður. Hann var svo sendur ásamt fleirum til Parísar, þar sem hlutverk hans var að varpa sprengju á eða inn í bíl indverska sendiherrans þegar hann staðnæmdist á gatnamótum. Finnandinn var að því kominn að vinna verkið, stóð með sprengjuna í höndunum og horfði á bílinn nálgast, þegar hann sá allt í einu fyrir sér andlitið á litlu systur sinni ... Þá tók samviskan völdin, hann lagði á flótta (ég gleymdi að spyrja hvað hann gerði af sprengjunni), fór heim til Íslands eftir krókaleiðum og hefur forðast Ananda Marga eins og heitan eldinn síðan.

Eða þetta sagði hann mér. En hann sagði mér reyndar líka frá galdrakrafti sínum og alls kyns dulrænum hæfileikum, morðtilræði við sig og fleiru, svo að ég veit ekki alveg ...

|

28.6.04

Efnafræðistúdentinn hringdi í mig áðan, staddur fyrir utan vinnustað sinn uppi á Lynghálsi (eða hvar þetta er nú, lengst uppí rassgati allavega) og hafði allt í einu áttað sig á því að græna kortið hans er útrunnið og hann peningalaus. Sá fyrir sér langa göngu heim til mömmu ...

Ég aumkaðist yfir hann og millifærði á hann í heimabankanum svo að hann gæti keypt sér strætókort og kæmist heim í kvöldmat. Munur að vera svona nútímavæddur - fyrir fáeinum árum hefði hann ekki getað hringt í mig til að láta vita og ég ekki getað gert nokkurn skapaðan hlut í því þótt hann væri þarna strandaglópur. Hann hefði bara þurft að labba heim.

Iss, hann hefði haft gott af því.

Smáviðbót: Hann gekk samt alla leið heim. Varð fyrir kríuárás á leiðinni.

|

Mér er farið að leiðast þetta frí. Ég hef svosem alveg nóg að gera en það er einhver órói í mér svo að mér gengur illa að halda mér að verki. Gríp allar afsakanir til að standa upp frá vinnunni fegins hendi. Nýi fataskápurinn var ansi drjúgur og á reyndar eftir að endast mér eitthvað lengur en dugir þó ekki til, mig vantar fleiri afsakanir.

Ég er þess vegna að velta því fyrir mér að fara norður á miðvikudaginn og taka Boltastelpuna með. Ég ætla að vera í Skagafirðinum um næstu helgi hvort eð er (ættarmót afkomenda Sveins og Þorbjargar á Skatastöðum) og fínt að bæta við tveimur dögum - þetta verður hvort eð er væntanlega í síðasta skipti sem ég gisti á gamla heimilinu, pabbi og mamma eiga að fá nýju íbúðina afhenta um miðjan mánuðinn. Flytja af Smáragrundinni eftir tæplega 37 ár, það verða óneitanlega viðbrigði.

Mér skilst að pabbi sé búinn að tína til eitthvað af bókum sem hann ætlar mér. Fínt, einmitt það sem mig vantaði, fleiri bækur. Nei, ég slæ svose ekkert hendinni á móti þeim. En það er ljóst að næstu endurskipulagningu á bókakosti heimilisins verður ekki frestað mikið lengur. Ég ætla ekki að leggja hluta af nýja fína rúmgóða fataskápnum mínum undir bækur.

Verst að helvítin hafa tilhneigingu til að troða sér alls staðar þar sem er laust rými.

|

27.6.04

Æi, ég verð samt að koma með dálítið minningablogg. En það verða þó bara matarminningar. Þetta var það sem fyrst kom í hugann, sirka frá árunum 1965-80:

Árstíðabundinn eggjaskortur. Eggjahamstur fyrir jól og páska. Biðraðir í Hagkaup af því að þar eru auglýst egg ,,bara einn bakki á mann" og kaupmenn auglýsa egg ,,aðeins handa föstum viðskiptavinum".
Rækjur bara fáanlegar niðursoðnar í pínulitlum dósum. (Humar óþekktur.)
Farsbrauð, vinsæll réttur á árunum kringum 1970. Kjötfarsi smurt á brauðsneiðar, þær settar á pönnu, meira farsi smurt á hina hliðina á meðan sú fyrri brúnast, snúið við. Borðað með tómatsósu.
Litað sykurvatn með kjörnum.
Rabarbarabitar á flöskum.
Ítalskur kjötréttur. Smásteik með spaghettí úr dós og bleikri sósu ,,bragðbættri" með Libby's-tómatsósu.
Vínarsnitsel með grænum baunum, rauðkáli og gaffalbitum.
Gaffalbitar.
Körfukjúklingur með duftfrönskum.
Ísinn úr ísbúðinni á Króknum. Hann var geymdur í pappaumbúðum í frystikistu og þegar maður pantaði ís (hægt að velja um mjólkurís og rjómaís) skóf afgreiðslustúlkan upp úr kassanum í kramarhús úr málmi, setti það í ísvélina og lagðist svo af öllu afli á stöng sem stóð út úr vélinni og pressaði ísinn ofan í brauðformið. Betri ís var ekki til.
Saxbauti með lauksósu frá KEA.
Rótarkaffi og Ludvig Davids kaffibætir.
Öll epli voru rauð og aðrir litir óhugsandi. Eplakassi fyrir jólin, með fjólubláum bylgjóttum pappaspjöldum á milli laga.
Hver einasta máltíð tvíréttuð, kvölds og morgna.
,,Robin Hood, ameríska vítamínbætta hveitið." 50 kílóa pokarnir voru allavega góðir, lökin sem saumuð voru úr þeim eru mörg hver enn í notkun.
Víkingaspjót á Holtinu.
Djúpsteiktur camembert með rifsberjahlaupi.
Hamborgari með spæleggi og ananas.
Einn ananashringur úr dós með flestum réttum á veitingahúsum. Seinna var það ein kívísneið.
Maya-kornfleks (,,Meira Maya, meira Maya.")
Óhrært skyr vafið í pappír, vel súrt og svo þykkt að það mátti skera það með hníf.
Kjuregej Alexandra að auglýsa Bláa borðann.
Kakó með rjóma í öllum barnaafmælum.
Lemon 21. Að ógleymdu kláravíni.
Flestar uppskriftir innihéldu orðin ,,100 g smjörlíki til steikingar".

Og svo framvegis ...

|

Mér finnst kenningin hans Erlings um að auðu atkvæðin í kosningunum séu sennilega vonsviknir stuðningsmenn Snorra Ásmundssonar nokkuð góð. Ég saknaði allavega Snorra þegar hann hvarf úr baráttunni.

|