Efnafræðistúdentinn fékk ekkert lýsi í lýsisfabrikkunni og segist þó hafa gert heiðarlega tilraun til að sníkja sér eins og eina flösku.
Vinnufundurinn sem ég fór á í gærkvöldi stóð lengi eins og rauðvínsvinnufundir gera gjarna en skilaði ágætum árangri - ég veit allavega hvers konar uppskriftir ég þarf að finna/upphugsa/prófa. Ritstjórinn kom með fyrstu eintökin af jólablaðinu á fundinn, ég byrjaði að fletta og stundi svo ,,hvar er afgangurinn af lambakjötsgreininni minni", því þarna var bara fyrsta síðan og svo kom smjörauglýsing með Jóa Fel á hægri síðunni. Ég hef ekkert á móti Jóa Fel, öðru nær, en þessi grein átti semsagt að vera sex síður en ekki ein og ég hélt andartak að það hefði orðið eitthvert meiriháttar fokköpp í umbrotinu. En blöðin sem hinar fengu reyndust í lagi, það vantaði bara eina örk í mitt eintak. Eins gott ...
Ég þekki fólk sem hefur óskaplega gaman af því að kjósa í prófkjörum og öðru slíku af einhverjum mér óþekktum ástæðum. Mikið held ég að það fólk öfundi núna Framsóknarmenn í norðvesturkjördæminu, mér skilst að þeir megi eiga von á að þurfa að kjósa tuttugu þrjátíu sinnum eða oftar á kjördæmisþinginu sínu um helgina. Það getur samt varla skilað meira klúðri en prófkjör Sjálfstæðismanna, er það? Og þó. Lögmál Murphys gildir vafalaust í Framsókn eins og annars staðar.