Skólabörnin
Ég hringdi til að fá fréttir af fyrsta skóladegi dóttursonarins, sem var í gær. Hann lét afskaplega vel af, sagði að skólinn hefði verið skemmtilegur og gæslan á eftir ekki síður. Hann er í hóp með besta vini sínum og þeir fengu að sitja saman í gær en mér skildist að ekki væri víst að framhald yrði á því þar sem þeir samkjöftuðu víst ekki. Annars þekkir hann marga krakka í árganginum (sem er ekki skipt í eiginlega bekki, heldur fjóra hópa), stráka úr fótboltanum og stelpur úr nágrenninu. Hann hafði bara eitt umkvörtunarefni, hann var ekki látinn læra neitt.
-Kannski lærum við eitthvað á morgun, sagði hann vongóður við mömmu sína á leiðinni heim. (Ja, eða á mánudaginn.)
Systir hans, sem aldrei hefur nú verið sérlega hrifin af skólagöngu, var líka óvenju hress með sinn hlut, enda fær hún fótboltann metinn sem tvær valgreinar.
Eins og ég hef margoft áður sagt, hún hefur þetta ekki frá mér.