Óverlód
Eitthvað sló út rafmagni í hluta af íbúðinni áðan. Rafmagnstaflan er mesti forngripur, sennilega frá því að Berndsenarnir áttu íbúðina á fyrri hluta síðustu aldar, með gammeldags öryggjum (vartöppum á gullaldarmáli) og það tók mig þónokkra stund að komast að því hvaða öryggi þurfti að skipta um. Ég breytti matseðlinum og sendi einkasoninn út í öryggjaleit - átti þó ekki von á að hún bæri árangur þar sem klukkan var rétt orðin sex og opnar búðir í nágrenninu ólíklegar til að eiga vartappa á lager.
Þegar hann var búinn að vera burtu nokkra stund fékk ég hugljómun, svissaði öryggjum í töflunni fram og aftur þar til ég var búin að finna svæði sem ég þarf örugglega ekki að nota næsta sólarhringinn (þvottavélin og annað ljósið á baðinu) og skipti á því og hinu, sem er fyrir ísskápinn, frystiskápinn, uppþvottavélina, ofnana, hraðsuðuketilinn ... hmm, ég held ég sé búin að finna skýringuna á að öryggið sló út.
Líklega þarf ég að endurskipuleggja eitthvað. Jafnvel rafmagnstöfluna eins og hún leggur sig.
En nú er að sjá hvernig endurskipulagningin á eldamennskunni kemur út. Rifin sem átti að baka og grilla verða nefnilega soðin og grilluð.