Ég þurfti að skjótast í annan bæjarhluta áðan, lá á og það var rigning, svo að ég hringdi á leigubíl, sem ég geri nú ekki oft. Líklega hefði ég átt að taka fram að ég vildi reyklausan bíl því að það var þvílík stybba inni í bílnum að ég fann til óþæginda í langan tíma á eftir. Auk þess var bílstjórinn að tala í síma þegar ég settist upp í og mátti hvorki vera að því að heilsa mér né heyra hvert ég ætlaði að fara.
Sko, leigubílstjórum er guðvelkomið að reykja eins og strompar mín vegna. Bara ekki í bílnum sem ég er að fara að setjast upp í. Og þeir mega alveg tala í síma, svo framarlega sem þeir mega vera að því að hlusta á hvert þeir eiga að keyra mér (og fylgjast með umferðinni). Ég er mjög hress með að það skuli ekki tíðkast hér á landi að gefa þjórfé en það kemur fyrir að manni dettur í hug að það væri nú æskilegt að geta lýst skoðun sinni með því að sleppa því að tippsa ...