(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

17.8.03

Menningarnótt ... Mér skilst að nóttin sjálf hafi allavega ekki verið jafnmikil ómenningarnótt og í fyrra (reyndar vorum við Boltastelpan á Ítalíu í fyrra en það var enn verið að tala um fylliríið og lætin þegar við komum heim) en við ákváðum samt að rölta heim í rólegheitum strax eftir flugeldasýninguna - Boltastelpan gisti hjá mér þessa nótt samkvæmt hefð og hafði reyndar verið hjá mér frá því um miðjan dag. Tilkynnti mér þegar við lögðum af stað í bæinn að ég þyrfti að taka með fullt af peningum. Tókst líka að fá mig til að kaupa hana sér kandífloss. Það geri ég nú ekki fyrir hvern sem er. Annað eins ógeð ... En ég er eftirlátssöm amma eins og margoft hefur komið fram.

Menningin já. Hún var kannski aukaatriði í þessu öllu saman. Samt heyrðum við óperusöng, ýmsan tónlistaflutning, hlustuðum á upplestur úr Harry Potter, skoðuðum nokkrar myndlistarsýningar og sáum einhverjar uppákomur. Ég hefði nú líklega gert allt aðra hluti ef ég hefði verið ein en þetta var skemmtilegt líka. Þegar við komum heim af flugeldasýningunni um hálftólf var efnafræðistúdentinn með hóp af vinum sínum hjá sér og hafði skipað öllum að hvísla (eða hafa allavega lágt) - hann hélt að við lægjum sofandi inni í herbergi. Ég hélt hann þekkti frænku sína betur en þetta ...

Svo kom fjölskyldan í kvöldmat eins og ég var búin að lofa Boltastelpunni - það hafði átt að vera pastaréttur í matinn síðasta kvöldið í sumarbústaðnum en þar sem við fórum í bæinn degi fyrr en áætlað var varð ekki úr því og hráefnið sem ég hafði haft með var allt til ennþá; svo bættist við eitthvað sem til var í ísskápnum. Til dæmis sykurbaunirnar, þær eru bara þarna af því að þær voru til og lágu undir skemmdum. Það hefði vel mátt sleppa þeim eða nota eitthvað annað í staðinn. Ég hefði til dæmis getað sett niðurskorna papriku en þá hefði hún farið út í um leið og tómatarnir.

Í ítölskum uppskriftum er algengt að pastasoðið sé notað út í sósuna og ég geri það oft en það má líka setja bara heitt vatn. Og ef pastasoðið er notað er rétt að muna að það er salt, og salta því ekki sósuna fyrr en búið er að smakka hana. - Þetta er fljótlegt og ég byrjaði ekki á sósunni fyrr en pastað var komið í pottinn. En ef það þarf að bíða í einhverjar mínútur eftir sósunni er gott að hella svolítilli ólífuolíu yfir það og blanda vel, þá klessist það ekki saman.

Sauðargæran er smekkmaður á osta eins og ég vissi reyndar fyrir. Móðir hans hafði varla við að svara kröfum hans um ,,meiri ott" og rífa parmigiano-ost yfir pastað hans.

Menningarnæturpasta

450 g tagliatelle
salt
2-3 msk ólífuolía
1 laukur, saxaður
2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
6-8 tómatar, vel þroskaðir, skornir í fjórðunga
3-4 pepperonistubbar eða nokkrar sneiðar af pepperonipylsu
1 tsk ítölsk kryddjurtablanda (eða önnur góð kryddjurtablanda)
nýmalaður pipar
2 msk tómatmauk (sólþurrkaðir tómatar og hvítlaukur frá Sacla)
250 g sykurbaunir (snjóbaunir)
50-70 g hráskinka
hnefafylli af klettasalati
1 kúla ferskur mozzarellaostur
nýrifinn parmigiano-ostur


Pastað soðið í miklu saltvatni samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum þar til það er rétt tæplega meyrt (al dente) og síðan hellt í sigti, látið renna vel af því og hvolft í skál. Á meðan er olían hituð á stórri pönnu eða í víðum potti og laukurinn og hvítlaukurinn látinn krauma í nokkrar mínútur án þess að brúnast. Tómatarnir og pepperoni-ið sett út í (stubbarnir skornir í litla bita, ef þeir eru notaðir), kryddað með kryddjurtablöndu og pipar og látið krauma áfram í nokkrar mínútur. Þá er einni ausu (um 150 ml) af pastasoði hellt á pönnuna og tómatmauki hrært saman við. Látið sjóða rösklega í 2-3 mínútur. Baunirnar settar út í og látið sjóða í 1 mínútu en síðan tekið af hitanum, smakkað og saltað ögn ef þarf. Hráskinkan rifin í bita og sett út í ásamt klettasalati. Hellt í skál. Mozzarellaosturinn skorinn í teninga og blandað saman við. Borið fram ásamt pastanu og nóg af nýrifnum parmigiano-osti.

|