Efnafræðistúdentinn er að vinna og kemur ekki í kvöldmat svo að ég elda ekkert, ætla bara að fá mér samloku með klettasalati, reyktri gæsarbringu og parmigiano-osti. Öðru máli gegndi í gærkvöldi, þá hringdi hann heim úr vinnunni, sagðist vera mjög svangur og bað um einhvers konar ,,stoo". Ég vissi nokkurn veginn hvað hann var að meina og hér er uppskrift að stooi fyrir svanga unga menn. Þessi tiltekni ungi maður borðar ekki hvaða grænmeti sem er, að öðrum kosti hefði ég kannski sett sveppi eða papriku út í réttinn. Eins mætti vel setja svona eina dós af kjúklingabaunum eða smjörbaunum út í en ég gerði það nú ekki í þetta skipti.
Ég notaði niðursoðna kirsiberjatómata af því að ég átti þá til í jarðskjálftabirgðunum en það má eins nota venjulega tómata; ég mundi þá sennilega nota heila tómata og grófsaxa þá, frekar en að kaupa saxaða niðursoðna tómata. Það á einfaldlega betur við í þessum rétti að hafa tómatana gróft saxaða.
Svínakjötspottréttur í tómatsósu
7-800 g svínakjöt, skorið í gúllasbita
2 msk hveiti
nýmalaður pipar
salt
3 msk olía
2 laukar, saxaðir
2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
3-4 gulrætur, skornar í bita
100 ml rauðvín (eða vatn)
2 dósir tómatar
250 ml vatn (eða eftir þörfum)
1 tsk basilíka, þurrkuð
1 tsk timjan, þurrkað
1 tsk sykur
600 g kartöflur
Kjötinu velt upp úr hveiti blönduðu pipar og salti. 2 msk af olíu hitaðar í víðum, þykkbotna potti eða á pönnu með loki og laukurinn látinn krauma við meðalhita í nokkrar mínútur. Hvítlauknum bætt á pönnuna og steikt í 2-3 mínútur til viðbótar. Tekið upp með gataspaða og sett á disk. 1 msk af olíu bætt á pönnuna og hitinn hækkaður. Kjötbitarnir settir á pönnuna og brúnaðir vel á öllum hliðum. Gulrótabitum bætt á pönnuna ásamt lauknum og rauðvíninu hellt yfir. Látið sjóða rösklega þar til næsturm allur vökvinn er gufaður upp. Þá er tómötunum bætt á pönnuna ásamt vatninu, kryddjurtunum og sykrinum. Hitað að suðu og síðan látið malla við hægan hita undir loki í um 1 klst, eða þar til kjötið er meyrt. Þá eru kartöflurnar afhýddar, skornar í teninga, um 2 cm á kant, og settar í pottinn. Látið malla í 20-25 mínútur í viðbót, eða þar til kartöflurnar eru meyrar og sósan þykk. Ef hún er mjög þunn þegar kartöflurnar eru settar út í er lokið tekið af og rétturinn látinn sjóða án loks. Smakkað til og síðan borið fram með brauði og e.t.v. salati. Ef til er steinselja er ekki úr vegi að strá svolitlu af henni yfir.