Ætli sé ekki best að uppskriftirnar hér að neðan verði þær síðustu sem ég birti á þessum vettvangi.
Ég er ekkert viðkvæm fyrir því að vera kölluð heilög eða frek eða eitthvað slíkt en þegar talað er um græðgi og látið að því liggja að það sé vegna fjárhagslegra hagsmuna sem ég er ósátt við að uppskriftir og annað sé tekið hér af mínu persónulega vefsvæði og kóperað beint inn í gagnagrunna - opna eða lokaða - þá er mér hreinlega allri lokið.
Ég hef sagt að mér sé ósárt um þótt verið sé að taka uppskriftir úr bókum mínum og setja á netið, innan hóflegra marka að sjálfsögðu. Þar væri þó hugsanlega hægt að tala um fjárhagslega hagsmuni, þótt ég telji reyndar nokkuð öruggt að það hafi engin neikvæð áhrif á söluna. Ég á engra fjárhagslegra hagsmuna að gæta varðandi uppskriftir sem ég hef samið fyrir Gestgjafann.
Ég hef sett vel yfir þúsund uppskriftir úr eldhúsinu mínu hér inn og á póstlistann sáluga. Ég hef eytt ómældum tíma í að setja þessar uppskriftir fram, eingöngu ánægjunnar vegna. Enginn hefur borgað mér krónu fyrir. Lái mér hver sem vill þótt mér þyki betra að hafa örlítið yfir þeim að segja. Öðru máli gegndi kannski ef ég væri að setja þær inn á spjallborð eða í gagnagrunn, ekki hér á mína eigin síðu.
Ég hef reynt að bregðast vel við öllum fyrirspurnum, óskum um uppskriftir og öðru sem mér hefur borist (þótt hent geti að annir í vinnunni komi í veg fyrir að ég leysi úr öllum spurningum). Ef einhver hefur beðið um leyfi til að birta uppskrift, hvort sem er á prenti eða annars staðar, hef ég ævinlega veitt það fúslega.
Ég veit þess vegna ekki alveg í hverju græðgi mín felst en þar sem það er alveg ljóst að skoðanir mínar og ýmissa annarra á höfundarrétti og netsiðferði fara ekki saman, þá er best að ég leysi þann hnút með því að birta ekki fleiri uppskriftir hér. Þeir sem eingöngu lesa bloggið mitt til að fá uppskriftir geta þess vegna hætt en að öðru leyti breytist ekkert.
Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að svara fyrirspurnum - vil gjarna fá þær sem flestar - og ef ykkur vantar uppskrift get ég sent hana í tölvupósti.
Við ykkur sem eruð á sama máli og ég vil ég bara segja þetta: Látið kyrrt liggja. Það hefur engan tilgang að ræða þetta mál frekar og mun bara skapa úlfúð og leiðindi, sem ég vil umfram allt forðast.