Ég var að koma úr 41 árs afmæli (það er að segja, Dagur systursonur minn varð eins árs á nýársdag - jú, hann á örugglega eftir að heyra einhverja nýárs-Dags-brandara á komandi árum) og móðir hans varð fertug í dag. Mamma hafði á orði að það væri sérkennileg tilfinning að eiga núna fjögur börn á fimmtugsaldri en þó enn undarlegra að elsta barnabarnið verður þrítugt á árinu.
Ingólfur bróðursonur minn leit framan í ömmu sína og talaði um hvað hún væri ótrúlega lík Gollum; tók þó fram að líkindin sæjust eingöngu í svipnum sem Gollum setti upp þegar hann væri búinn að beita einhverjum bellibrögðum sem aðrir hefðu fallið fyrir. Ég er ekki viss um að drengurinn hafi bætt neitt úr skák með því. Efnafræðistúdentinn rifjaði þá upp hvað honum hefði alltaf þótt langafi þeirra líkur Yoda. ,,Var hann grænn?" spurði Ingólfur. Ég flýtti mér að mótmæla því að Jón í Dal hefði verið grænn, frekar þá rauður ef hann skipti litum. Ég veit sveimér ekki hverskonar hugmyndir þessir drengir gera sér um áa sína.