Mikið er ég annars fegin að ég skuli ekki vera strangtrúaður gyðingur. Nógu væri nú erfitt að fara eftir öllum mataræðis- og eldunarreglunum og eiga tvöfaldan skammt af öllum áhöldum, pottum og diskum (má ekki nota það sama fyrir kjötmeti og mjólkurmat), en svo eru allar hinar reglurnar. Ég vissi til dæmis ekki fyrr en ég las um það einhvers staðar áðan að orþódox gyðingar mega ekki nota lykilkort til að opna dyr að hótelherbergjum sínum á hvíldardögum. Ef þeim tekst ekki að finna hótel sem notar gamaldags lykla verða þeir því að vera um kyrrt á herberginu allan hvíldardaginn, skilja eftir ólæst (ég las bréf frá einum sem stakk bréfmiða í raufina á læsingunni til að hurðin læstist ekki) eða sofa í lobbíinu. Og ég var að lesa bréf á póstlista þar sem mikið var rætt um hvort leyfilegt væri á hvíldardögum að ganga nálægt húsum þar sem hreyfiskynjarar gætu kveikt ljós eða sett af stað myndavélar. Og ég hafði alls ekki gert mér grein fyrir því að ef maður sér orþódox gyðingakonu berhöfðaða, þá er hún það í rauninni alls ekki, hún er með hárkollu (sem einhver gæti nú sagt að væri að fara á bakvið lögmálið en er víst í lagi að dómi sumra rabbína).