Ég var að kaupa inn í Nóatúni í gær og fann engar gular baunir, þær voru ekki hjá öllum hinum þurrkuðu baunategundunum. Svo að ég stoppaði starfsmann og spurði hvort ekki væru til gular baunir. Jú, hún hélt það nú, teymdi mig að niðursuðudósarekkanum og benti.
- Þetta er maís, sagði ég. - Mig vantar gular baunir. Alvörubaunir.
Hún horfði á mig og var eitt spurningarmerki í framan.
- Svona eins og maður notar í baunasúpu, sagði ég. - Saltkjöt og baunir, sjáðu til.
Þá rann upp fyrir henni ljós.
- Ertu að meina svoleiðis baunir, sagði hún og fannst greinilega sérkennilegt að einhvern vantaði svoleiðis baunir og sprengidagurinn langt undan. - Þær eru hérna.
Svo teymdi hún mig að kryddhillunni; þar voru nokkrir pokar af gulum baunum á neðstu hillu, við hliðina á grófa saltinu. Ég skil nú ekki af hverju þær eru ekki hafðar með öðrum baunum, en látum það vera. En hvers vegna í ósköpunum eru allir farnir að kalla maískorn gular baunir? Mér finnst þetta vera frekar nýlegt, allavega eru ekki mjög mörg ár síðan ég tók fyrst eftir því og fannst það þá frekar sérkennilegt. Ég man ekki eftir að hafa heyrt maís kallaðan annað en maís eða maískorn hér áður fyrr. Enda er maís náttúrlega alls óskyldur baunum. (Reyndar eru gular baunir strangt til tekið ekki baunir, heldur ertur, en ég held að stúlkan hefði ekki skilið mig neitt betur ef ég hefði spurt um gular ertur.)