Það er alltaf að velkjast í kollinum á mér þessa dagana vísuhelmingur sem ég lærði þegar ég var lítil; ég hef aldrei kunnað meira af vísunni, veit ekki hvort þetta er fyrripartur eða botn og hef ekki hugmynd um tilefnið. En kviðlingurinn er svona - ég hef reyndar grun um að þarna hafi eitthvað skolast til en svona lærði ég hann:
,,Farðu í rassgat, Raufarhöfn
og rídd' á grárri tófu."
Ég veit ekki - mér finnst hálfpartinn að einmitt svona séu skilaboðin sem Raufarhafnarbúar eru að fá þessa dagana. Nú er ég enginn sérstakur talsmaður þess að styrkja eða viðhalda byggð á hvaða krummaskuði sem er, og ég er ekkert endilega sannfærð um að veröldin versni að ráði þótt fólki fækki á Raufarhöfn, en þetta er ansi nöturlegt fyrir fólkið sem þarna býr. Ekki síst þegar litið er á það sem á undan er gengið. Og sérkennilegt að heyra að sveitarstjórinn fyrrverandi, sem tapaði tugum milljóna af peningum þessa fyrrum eins ríkasta sveitarfélags landsins í hítina hjá Decode, Oz, Íslandssíma - og Netverki, sem hann átti sjálfur - skuli núna vera í málaferlum við sveitarfélagið til að krefjast biðlauna.
Samt finn ég eiginlega hvað mest til með Pólverjunum, sem eru búnir að halda uppi vinnu í frystihúsinu árum saman, búnir að kaupa sér hús og festa rætur, og hanga nú í lausu lofti, sannfærðir um - sjálfsagt með réttu - að Íslendingar muni sitja fyrir um vinnu og alla fyrirgreiðslu. Ætli það sé annars ekki nokkuð víða sem útlendingar eru helmingur af starfsliði frystihúsanna eða meira?
Annars fannst mér nokkuð góð tillagan hans Erlings, um að dæma ungu athafnamennina sem sleppt var úr gæsluvarðhaldi í dag (ef þeir verða nú fundnir sekir) til samfélagsþjónustu norður á Raufarhöfn, þ.e. að láta þá dúsa þar þangað til þeir hafa reist þorpið úr rústum. Ekki vantar þá hugmyndirnar og athafnagleðina. En það þyrfti sennilega að fá einhvern í bókhaldið með þeim.