Ljósvakalæðan vill vita af hverju ég/við Erna sendum ekki bara Böðvari bréf og spyrjum hann um kveðskapinn sem vitnað er í hér fyrir neðan. Hmm .. ekki ég allavega. Síðast þegar ég sendi Böðvari bréf var þegar hann var með Daglegt mál í útvarpinu fyrir ábyggilega hátt í tuttugu árum. Hann byrjaði fyrsta þáttinn á að lýsa því yfir að eitt af markmiðum sínum væri að kenna Íslendingum að tala um að loka dyrum en ekki loka hurðum. Allt í lagi með það. Nema á þessum tíma bjó ég í gömlu húsi í Litla-Skerjafirði og það háttaði svo til að útidyrahurðin var tvöföld, þ.e.a.s. tvær hurðir í sama dyraopinu - gömul hurð sem var mjög óþétt og innan við hana önnur nýrri og þéttari. Og á veturna barst mikill kuldi upp stigann ef báðar voru ekki ... sjáiði vandamálið? Gagnlega barnið og vinir hennar fjölmargir voru á stöðugu renneríi út og inn og skeyttu yfirleitt ekkert um innri hurðina, létu nægja að loka þeirri ytri (sko bara). Ég var alltaf að kalla niður stigann, þegar þau voru að koma inn eða fara út, og minna þau á að loka báðum - báðum hvað? Þetta voru ómótmælanlega bara einar dyr, þótt hurðirnar væru tvær. Ég vildi náttúrlega ekki vera að hafa einhverja málleysu fyrir börnunum og lét yfirleitt nægja að öskra ,,Lokiði báðum!" en það var svosem engin lausn. Eiríkur bróðir stakk upp á að ég færi að kalla ,,Látiði báðar hurðirnar falla að stöfum!" en ég taldi ólíklegt að það mundi bera tilætlaðan árangur.
Ég skrifaði þess vegna Böðvari og bar vandræði mín upp við hann, minnug yfirlýsingar hans þegar hann byrjaði með þáttinn. Svo sat ég vikum saman límd við útvarpið og hlustaði á Daglegt mál til að heyra lausn hans á vandanum. En ekkert kom. Í kveðjuþætti hans endaði hann svo á því að þusa eitthvað - æi, ég man ekki lengur fyrir víst hvað hann sagði - hann minntist ekkert á bréfið en ég skildi samt að hann átti við það, var draugfúll og hélt greinilega að ég hefði verið að stríða sér. Sem ég var auðvitað en það er önnur saga. Mig vantaði virkilega lausn á þessum vanda og hann leystist ekki fyrr en ég flutti úr íbúðinni mörgum árum seinna.
Svo var ég reyndar líka í bekk í MA sem Böðvar hélt frægan reiðilestur yfir, sem lauk með því að hann hafði talað sig í slíkan ham að hann rauk út, skellti fast á eftir sér og sást ekki meira þann daginn. Þessi reiðilestur hefur orðið bekkjarsystkinum mínum ákaflega minnisstæður og þrjú þeirra tiltóku hann sem eftirminnilegasta atvikið úr menntaskóla, 25 árum síðar. Ég missti hins vegar af byrjuninni og eiginlega öllu nema hurðarskellinum, ekki vegna þess að ég væri ekki mætt, ég var bara einhvers staðar úti á þekju eða hálfsofandi og tók varla eftir því þótt kennarinn hækkaði róminn ansi hressilega. Ég man að ég spurði Stjána Júl (bæjarstjóra), sem var sessunautur minn, hvað gengi eiginlega á og hann starði á mig í slíkri forundran að ég áttaði mig á því að best væri að þegja og þykjast hafa orðið vitni að öllu saman. Enda liðu tuttugu og fimm ár þangað til ég komst að tilefni reiðilestursins.
En við vorum örugglega ekki uppáhaldsbekkurinn hans Böðvars. Og ég er allsendis óviss um að hann mundi taka nokkurri fyrirspurn frá mér fagnandi.