Efnafræðistúdentinn og Eldfjallið eru að skoða nýjan tölvuleik (Zelda fyrir GameCube) inni í herberginu hans. Skylmingastúlkan er frammi í stofu að horfa á franska sjónvarpsstöð. Ég er ekki með í þessu dæmi og þess vegna er best að ég noti tækifærið og slái inn djöflatertuuppskriftina sem ég var beðin um á dögunum.
Eiginlega má segja að djöflatertan hafi átt aldarafmæli í fyrra, allavega birtust fyrstu uppskriftirnar að devil's food cake á prenti árið 1902. Enginn veit fyrir víst af hverju nafnið er komið en þess hefur verið getið til að það hafi átt að vera andstæða við englatertu, sem er skjannahvít. Djöflaterta getur náttúrlega orðið ansi dökk en kannski ekki alveg kolsvört eins og kölski. Bandaríkjamenn reyna gjarna að halda því fram að hún sé rauð á litinn. Þeir eru með eitthvað breglað litaskyn.
Þessi ætti að verða pínulítið karamellukennd, minna dálítið á brownies; það er af því að notaður er púðursykur. En það má líka nota hvítan sykur.
Sjö mínútna kremið getur tekið styttri tíma ef þeytarinn er sæmilega öflugur. Ég mundi ekki reyna að gera það með handknúnum þeytara. Svo á ég einhvers staðar uppskrift að kremi sem gert er úr sykurpúðum og þarf ekki að þeyta svona mikið en finn hana ekki í augnablikinu; skal samt leita betur. - Annars hefur mér sýnst að það sé mun algengara nú orðið að nota súkkulaðikrem á tertuna.
Djöflaterta
80 g dökkt súkkulaði
225 g smjör, lint
350 g púðursykur
3 egg
325 g hveiti
2 tsk matarsódi
125 ml súrmjólk
250 ml sjóðandi vatn
2 tsk vanilluessens (eða dropar)
Ofninn hitaður í 375°C. Tvö meðalstór tertuform smurð og pappírsklædd. Súkkulaðið brætt í vatnsbaði eða örbylgjuofni og síðan látið kólna dálítið. Smjör og púðursykur hrært vel saman og síðan er eggjunum hrært saman við, einu í senn, og svo súkkulaðinu. Hveiti og matarsódi sigtað saman og síðan hrært saman við deigið, smátt og smátt, til skiptis við súrmjólkina. Að síðustu er sjóðheitu vatninu hrært rólega saman við ásamt vanillunni. Deiginu skipt á formin, þau sett í ofninn og botnarnir bakaðir í um hálftíma, eða þar til prjónn sem stungið er í miðjuna kemur hreinn út. Botnarnir látnir kólna í formunum í um 5 mínútur og síðan hvolft á grind. Þegar þeir eru alveg kaldir er hluta af kreminu smurt á annan, hinn settur ofan á og kakan þakin með afganginum af kreminu.
Sjö mínútna krem
(Seven minute icing)
2 eggjahvítur
300 g sykur
3 msk kornsíróp (Karo)
75 ml vatn
1 1/2 tsk vanilluessens
Eggjahvítur, sykur, kornsíróp og vatn sett í tvöfaldan pott eða skál sem sett er ofan á pott með vatni sem haldið er við suðu. Þeytt með rafmagnshandþeytara í 4-7 mínútur, eða þar til kremið myndar stífa toppa. Best er að byrja að þeyta á litlum hraða og auka hann smátt og smátt. Vanillunni bætt út í og þeytt ögn lengur.