Jæja, ég náði að ljúka við þýðingarverkefnið. Var reyndar orðin of syfjuð um hálftvöleytið til að muna stakt orð á venjulegri ensku, hvað þá bissnissensku, svo að ég fór að sofa og stillti vekjaraklukkuna á sex. Hefði reyndar vaknað þá hvort eð var til að tékka á að efnafræðistúdentinn væri kominn á lappir og farinn að búa sig undir að mæta í vinnu korter yfir. (Hann getur alveg vaknað sjálfur, blessaður drengurinn (afsakið, harðfullorðinn maðurinn), og gerir það. Það er bara ég sem er illa haldin af mömmukomplexum.) En í staðinn fyrir að sofna aftur eins og venjulega settist ég við tölvuna og mundi allt í einu öll orðin og hugtökin sem ég hefði ekki getað rifjað upp um nóttina þótt ég ætti lífið að leysa.
Sendi svo skjalið á undan mér í vinnuna með tölvupósti, rölti vestur eftir og fékk hálfgert sjokk þegar eini pósturinn sem beið mín voru þessi venjulegu tippalengingar-, Prozac- og Nígeríufjársvikatilboð (sem, nota bene, hafa verið frá öllum löndum öðrum en Nígeríu að undanförnu. Meiraðsegja Írak). Enginn póstur frá sjálfri mér, og þó hafði ég tékkað á Sent Mail til öryggis og séð að ég hafði sent skjalið. Ég hringdi í ofboði í efnafræðistúdentinn, sem brást vel við og ætlaði að kanna hvort hann gæti fengið að skjótast heim úr vinnunni (til allrar hamingju bara tveggja til þriggja mínútna gangur) og senda skjalið aftur. En áður en til þess kom poppaði tölvupósturinn allt í einu upp einhversstaðar utan úr netheimum, svo að ég gat hringt aftur og látið hann vita að hann gæti haldið áfram að reka túrista í sturtu. Eða hvað það nú er sem hann gerir þarna í Sundhöllinni. Nei, líklega er annars ekkert mikið um túrista þar.