Albatrosegg og sæljónatungur
Ég var að fá Falklandseyjamatreiðslubókina sem ég átti í pöntun. Þar er uppskrift að mörgæsareggjapavlovu (2 mörgæsareggjahvítur, 1 bolli sykur, 1 tsk edik, 1 tsk vanilluessens, 1 ábætisskeið maísmjöl) en því miður engin að grillaðri mörgæs eða einhverju slíku góðgæti.
Reyndar gæti margt þarna eins verið íslenskt (kannski ekki skrítið, staðháttanna vegna) - mikið um kindakjöt, silung, harðgert grænmeti, rabarbara og bakkelsi. Meira að segja rabarbarabjór.
Svo eru reyndar uppskriftir með albatros- og mörgæsaeggjum. Jú, og tekið fram að sæljónatunga sé sérlega bragðgóð. En engin uppskrift, því miður.