Kartöflubóndinn Grímur amtmaður
Það passar reyndar ágætlega að ég skuli einmitt í dag vera að grufla í ævisögu Gríms amtmanns. Hann var nefnilega mikill áhugamaður um garðrækt, stundaði hana af kappi, stakk sjálfur upp garða sína og sáði; ræktaði mikið af kartöflum á Möðruvöllum og - þegar vel áraði - einnig ertur, lauk, hreðkur, rauðrófur, grænar baunir, sniðbaunir og blómkál. Aflaði sér þó takmarkaðra vinsælda fyrir vikið; á fyrri hluta 19. aldar var íslenskur almenningur lítt hrifinn af grasi og kálmeti og vinnufólk forðaðist að ráða sig í vist þar sem garðrækt var mikil til að þurfa ekki að éta kálið. Eða strauk úr vistinni.