Engar bjarnagallblöðrur eða rafmagnsstóla ...
Fyrst ég minntist á ebay í gær - ég varð fyrir því á dögunum að hlutur sem ég hafði mikinn áhuga á var skyndilega horfinn út þaðan og svo fékk ég tölvupóst um að ebay hefði kippt honum út ,,due to a listing violation", sem venjulega þýðir að um sé að ræða gróft klám, þýfi, áfengi, sprengjur, bjarnagallblöðrur, óhreinar nærbuxur, nasistamerki, rafmagnsstóla, þjófalykla, líkamshluta eða annað bannað stöff (framantalið er allt á lista yfir bannaða hluti).
Ég varð hálfhissa því þetta var afskaplega sakleysislegur gripur, hélt ég. En svo áttaði ég mig á hvað var: Hluti af honum var úr fílabeini og það kom fram í titlinum. Ebay er nýbúið að banna sölu á fílabeini nema það sé frá því fyrir 1947 og skírteini fylgi um aldurinn.
Nú er þessi hlutur alveg örugglega eldri en 1947 en sennilega skírteinislaus. En ég fékk tölvupóst frá seljandanum þar sem hún sagði mér að hún væri búin að setja gripinn aftur inn. Nema núna er ekkert minnst á fílabein, ekki í titlinum allavega. Svo að ég bíð spennt eftir að sjá hvernig fer.