Morguntruflun
Ég vaknaði klukkan fjórtán mínútur yfir sex í morgun við það að dyrabjallan hringdi. Ég var að hugsa um að liggja kyrr en datt svo í hug að þetta gæti verið einkasonurinn sem hefði lent á blindafylliríi eftir langa og stranga kaffivakt á Laugaveginum og kjötsúpu og Calvados hjá móður sinni undir miðnætti og hefði nú týnt bæði lyklunum og vitinu og treysti sér ekki þennan fjögurra mínútna gang heim til sín. (Hér ætlaði ég að segja ,,annað eins hefur nú gerst" - en svo mundi ég að það hefur það reyndar ekki, þetta er prúður drengur og ekki vanur að drekka frá sér allt vit.)
Svo að ég skrönglaðist fram að dyrum og svaraði í dyrasímann.
Ókunnug karlmannsrödd, öllu fullorðnari en einkasonurinn: -Heyrðu ... ég gleymdi lyklunum.
-Æ, hvað það var leiðinlegt fyrir þig, sagði ég, fór inn í rúm og hélt áfram að sofa. Þegar ég var að festa blund datt mér reyndar í hug að þetta hefði kannski verið andalæknirinn minn að koma í morgunheimsókn. En svo áttaði ég mig á því að hann þarf víst ekki lykla.