Mér finnst þetta vera fyrsti eiginlegi haustdagurinn. Gangstéttin fyrir utan húsið á Kárastígnum var alþakin laufi í morgun, það sást varla í hana. Ég hafði ekki tekið eftir því fyrr að laufin væru farin að sölna að ráði - jú reyndar, ég var að henda dóti út af svölunum í gær og stór kassi lenti á runna sem teygir sig yfir girðinguna úr garðinum við hliðina og laufið þeyttist í allar áttir. En þá var veðrið svo gott.
Af hverju var ég að henda dóti út af svölunum? Tja, það er bara venjuleg aðferð hér í húsinu þegar maður þarf að losa sig við eitthvað sem ekki er þeim mun stærra eða þyngra eða gæti orðið fyrir skemmdum í fallinu, eða mölbrotnað og sóðað út garðinn. Sófarnir fóru til dæmis ekki þá leiðina og ekki gifsplötuendarnir heldur. Reyndar voru þetta bara pappakassar og umbúðadót sem ég var að henda. Efnafræðistúdentinn stóð svo niðri í garði og hirti dótið jafnóðum (mér tókst ekki að hitta hann með neinni sendingunni). Þetta fór svo allt í Sorpu ásamt ýmsu dóti úr skúrnum. Annars er það merkilegt að það er sama hvað við losum okkur við mikið af dóti úr skúrnum, hann er alltaf troðfullur.