Ég hringdi í efnafræðistúdentinn í hádeginu.
Móðirin: - Skrúfurnar sem vantaði í stólinn, sem sendillinn kom með í gær ...
Efnafræðistúdentinn: - Já?
Móðirin: - ... hvar eru þær?
Efnafræðistúdentinn: - Pokinn er á borðstofuborðinu - nei annars, ég setti hann á eldhúsbekkinn við hliðina á helluborðinu. Ég sýndi þér þér hann og vakti sérstaklega athygli þína á að ég setti þær þar svo þær týndust ekki.
Móðirin: - Ó. Ég man ekkert eftir því. Ég sem leitaði heillengi að þeim í gærkvöldi þegar ég ætlaði að fara að skrúfa stólinn saman. Ég var farin að halda að þeim hefði verið hent og hlakkaði ekkert sérstaklega til að hringja í búðina og útskýra að mig vantaði enn einn skrúfupoka.
Efnafræðistúdentinn: - Þú ert ótrúleg ...
En svo sagði hann ekki meira. Eins gott fyrir hann því að í gær var ég Besta Mamma í Heimi. Það var þegar strákurinn frá póstinum kom með Stjörnustríðs-DVD-diskana sem ég pantaði fyrir hann.
Nú ætti allt að vera í sómanum. Allar skrúfur komnar (vonandi vantar ekkert í pakkann, ég á sem sagt eftir að skrúfa stólinn saman) og ljósakrónan sem týndist í Byko við Hringbraut fannst í Byko í Kópavogi. Borðstofan mín er að verða ljómandi fín.