Mig vantaði einmitt Kreuzschlitzschraubenzieher þar sem ég stóð og var að hengja upp pottlokarekka í eldhúsinu. Nennti ekki að skipta um á borvélinni, fann ekki skrúfjárnið mitt en þar sem efnafræðistúdentinn á margodda skrúfjárn sem hann er ákaflega stoltur af (keypt í Tiger á 200 krónur) kallaði ég í hann og bað hann um að lána mér það.
Hann kallaði á móti að hann væri í símanum.
Hrmpf. Ég sem var að enda við að hrósa mér af því hvað hann væri vel alinn upp. Og svo er hann ekki með forgangsröðina á hreinu. Þegar mamma manns stendur uppi í stiga og vantar skrúfjárn, þá auðvitað finnur maður skrúfjárn ekki seinna en strax.
Jæja, ég fékk nú skrúfjárnið. Á endanum.