Hann dóttursonur minn er afskaplega gefinn fyrir hlutverkaleiki (líklega tilvonandi rólari). Þegar hann er ávarpaður með nafni er mjög líklegt að hann snúi upp á sig og tilkynni: ,,Ég er ekki Úlfur, ég er ..." Að undanförnu er hann til dæmis búinn að vera hundur, hvalur, Spiderman, Trulli (kappakstursökumaður, fyrir þá sem ekki vita), Spiderman-Trulli, Kobbi kló, krókódíll, deingútur (þ.e. geitungur) og ýmislegt fleira sem ég man ekki í svipinn.
Hann var hér í gærkvöldi, skreið inn í risastóran pappakassa sem var í borðstofunni, tilkynnti að þetta væri ofn og hann væri kaka og væri að bakast. Öskraði á mig þegar ég kíkti inn ,,passaðu þig, kakan er heitur!" Kom svo til mín á eftir og sagði ,,nú er kakan kaldur, ætlarðu ekki að borða mig?"
Honum líkar kökuhlutverkið svo vel að síðan hann uppgötvaði það hefur hann verið súkkulaðikaka, snúðakaka, Spiderman-kaka og Spiderman-súkkulaðikaka.