(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

1.5.04

Ég kom við í Gvendi dúllara áðan og vitjaði um bók sem ég hafði verið látin vita að væri þar til og ég var lengi búin að leita að. Gaman, gaman. Ný matreiðslubók fyrir fátæka og ríka eftir Jóninnu Sigurðardóttur, reyndar ekki frumútgáfan frá 1915, heldur önnur prentun frá 1916, en sama er.

Aftast í bókinni er tafla yfir verð á matvælum á Akureyri veturinn 1913-14, því að eins og Jóninna segir: ,,... og hefur það verið látið haldast óbreytt, þar eð sennilegra þykir að það komi aptur eða því sem næst, enn dýrtíð sú sem nú er muni vara í mörg ár komandi." Bjartsýnismanneskja, Jóninna.

Nokkur dæmi úr töflunni - alls staðar miðað við 1 kíló:

Appelsínur 80 aurar
Egg 1 króna og 20 aurar
Gráfíkjur 28 aurar
Hveiti 32 aurar
Hrísgrjón 30 aurar
Hænsnakjöt 50 aurar
Hveitibrauð 40 aurar
Heilagfiski 30 aurar
Jarðarber (niðursoðin, væntanlega) 90 aurar
Kindakjöt 60 aurar
Kartöplur 12 aurar
Laukur 30 aurar
Lax 90 aurar
Linsur 56 aurar
Makaróní 75 aurar
Nautakjöt 75 aurar
Rúgmjöl 18 aurar
Rófur 10 aurar
Smjör 1 króna og 50 aurar
Smjörlíki 1 króna og 30 aurar
Svínakjöt 75 aurar
Súkkulaði 2 krónur og 30 aurar
Spínat 24 aurar
Sykur 50 aurar
Tómatar 80 aurar
Þorskur 12 aurar

Merkilegt, ég hafði t.d. ekki gert mér grein fyrir að hveiti og sykur hefðu á þessum tíma verið svona dýrar vörur, hlutfallslega.

|

Heimilissíminn er óstarfhæfur akkúrat þessa stundina vegna Dularfulla batteríshvarfsins; þeir sem þurfa nauðsynlega að ná í mig geta gert það hér eða á msn.

|

30.4.04

Tengdadóttir mín, kærasta efnafræðistúdentsins, keppti á Norðurlandameistaramótinu í skylmingum í Kaupmannahöfn um síðustu helgi. Og vann, varð Norðurlandameistari í kvennaflokki. Einn félagi hennar varð Norðurlandameistari í karlaflokki.

Ég hef ekki séð stafkrók um þetta í íslenskum blöðum eða heyrt minnst á þetta í nokkrum fjölmiðli. Nú skal ég játa að ég fylgist ekki sérlega vel með íþróttafréttum svo að þetta getur hafa farið framhjá mér. Ég held samt ekki. Það sitja greinilega ekki allar íþróttagreinar við sama borð.

|

Ég sá nú ekkert sérlega mikið af gluggum á Hvanneyri en þeir sem ég sá voru ýmist á bak við gardínur eða ekki. Hins vegar fann ég engar gardínur með einhverju öðru en glugga á bak við. Ekki bjórflöskum allavega.

Kom til baka af áhugaverðri ráðstefnu, útbelgd af gröfnum og taðreyktum Mývatnssilungi, mývetnskum mozzarellaosti, osti úr Gnúpverjahreppi, bjúgum, magál og gæsapaté úr Bárðardalnum, sunnlensku sauðahangikjöti, kæfu, rúllupylsu og kjötbollum, túnfíflahunangi úr Ólafsfirði, hverabrauði úr Bjarnarflagi, sveitabrauði úr Kinninni, pörtum og kleinum úr Gnúpverjahreppi, sunnlenskum og norðlenskum flatkökum, hrútaberjahlaupi, jarðarberjasultu, krækiberjasultu, rifsberjasultu, niðursoðnum rauðrófum og kryddmauki, landnámshænueggjum, grasöli, jurtatei, geitamjólk og einhverju fleiru sem ég er að gleyma.

Fengum líka fullt af áhugaverðum hugmyndum að efni sem væri gaman að taka fyrir í Gestgjafanum. Það er nefnilega verið að gera ótrúlega margt spennandi út um allt land en okkur hættir stundum til að horfa meira á það sem er að gerast í útlöndum.

|

Ég er að fara upp á Hvanneyri á eftir, á ráðstefnu á vegum Landbúnaðarháskólans um heimavinnslu og sölu afurða. Gæti orðið áhugavert, það eru margir möguleikar á því sviði sem gaman er að velta fyrir sér. Ég veit samt ekki hvort ég fer neitt að nefna þetta með kálfseistun.

Annars er ýmis heimaframleiðsla sem mér þótti mjög góð þegar ég var yngri en hef ekki smakkað í áratugi. Skyldi vera markaður fyrir blóðkássu og reyktum folaldatungum? Súrum lungum? Hver veit. En þar sem ekki er einu sinni hægt að uppdrífa venjulega lundabagga lengur (ekki að mig langi neitt í þá), þá efast ég um að sé markaður fyrir reyktu lundaböggunum sem mér skilst að Eiríkur langafi minn hafi haldið mikið upp á og þótt bestir þegar þeir voru farnir að feyra dálítið.

Og svo þarf ég að tékka á þessu með gardínurnar.

|

29.4.04

Við frestuðum grillmyndatökunni sem átti að fara fram á svölunum hjá mér í dag vegna veðurs. Ég ætla nú samt að grilla á eftir. Lambalæri fyllt með fetaosti, kryddjurtum, furuhnetum og fleiru. Grillaðir tómatar, grillað brauð og salat með. Vanilluís með dulce de leche á eftir.

Nei, það er enginn sérstakur sparidagur í dag. Mig langaði bara í eitthvað gott. Og efnafræðistúdentinn er að fara í fyrsta prófið á morgun.

|

Svo ég haldi áfram að vitna í dagblöðin (nei, ég er ekki búin að liggja í blaðalestri í allan morgun, maður á nú kaffitíma), þá rak ég augun í atvinnuauglýsingu í Mogganum:

Matreiðslumaður óskast í veiðihús. Óskum eftir að ráða hægan og vanan matreiðslumann í veiðihús í sumar.

Ég hef aldrei séð auglýst eftir hægum starfsmanni áður. En þeir eru sjálfsagt til í matreiðslumannastétt eins og annars staðar ... Þið þarna kokkar, vitið þið ekki um einhvern sem væri eins og sniðinn í þetta starf?

|

Ég var að lesa frétt í DV um ungan mann sem var rekinn af heimavist Bændaskólans á Hvanneyri af því að hann átti nokkrar bjórdósir. Ekki ætla ég að hafa skoðun á því en í viðtali við drenginn segir hann meðal annars: - Það sást í bjór uppi í glugga sem var á bak við gardínurnar hjá mér.

Hmm. Þetta hljómar eiginlega eins og það hafi verið hálfgerð tilviljun að glugginn var akkúrat þarna á þessari stundu. Venjulega þegar ég sé gardínu geri ég ráð fyrir að það sé gluggi á bakvið hana. Er þetta einhvernveginn öðruvísi í Borgarfirðinum?

Ég er sennilega að fara á Hvanneyri á morgun. Ætli ég geti stillt mig um að gægjast á bakvið gardínur til að gá hvort séu gluggar þar?

|

28.4.04

Við efnafræðistúdentinn vorum að horfa á fréttir af sauðburði í sjónvarpinu áðan. Ég fór að reyna að útskýra litinn broddskitugult fyrir drengnum. Hann hafði ekki áhuga.

Núna sit ég og horfi á Hugh Fearnsley-Whittingstall á hænsnauppboði á BBC Food. Ætli ég hefði annars átt að verða sveitakona?

P.S. Og eftir hænsnauppboðið tók náunginn sig til, gelti kornungan kálf og steikti svo dvergsmá eistun og bar þau fram á steiktu franskbrauði með salvíu. Aldrei datt okkur nú í hug að nýta eistun þegar verið var að gelda stóðhestana heima.

|

Ég var alveg búin að gleyma biscotti-uppskriftinni sem ég var beðin um en hér er hún. Þetta er mjög einföld uppskrift en það er mikilvægt að rista möndlurnar, kökurnar verða ekki eins góðar ef notaðar eru óristaðar möndlur.

Biscotti di Prato

125 g heilar möndlur
2 eggjarauður
250 g sykur
250 g hveiti
örlítið salt


Ofninn hitaður í 200°C. Möndlunum dreift á bökunarplötu og þær bakaðar í u.þ.b. 5 mínútur, eða þar til þær eru rétt farnar að taka lit en ekki brenna. Látnar kólna og síðan grófsaxaðar. Eggjarauðurnar þeyttar með sykrinum þar til blandan er ljós og létt. Hveiti, möndlum og salti hrært saman við og hnoðað þar til deigið er slétt og samlagað en ekki lengur. Mótað í sívalninga. Þeir eru svo færðir yfir á pappírsklædda bökunarplötu og bakaðir við 180°C í um 25 mínútur. Þá er platan tekin úr ofninum og hitinn hækkaður aftur í 200°C. Lengjurnar skornar á ská í um 1 cm þykkar sneiðar, þeim raðað aftur á plötuna og kökurnar bakaðar í 20-30 mínútur í viðbót, eða þar til þær eru ljósgullinbrúnar og stökkar.

Svo þarf náttúrlega helst að hafa vin santo með.

|

Mér finnst forystugreinin Lítil lexía á Baggalúti í dag yndisleg.

|

Fyrst ég minntist á Mandy Rice-Davies, þá dettur mér í hug önnur góð setning sem hún lét hafa eftir sér fyrir örfáum árum, orðin amma og löngu flutt til Ameríku, þar sem enginn kannast lengur við fjörutíu ára gamalt breskt hneykslismál. Ég veit reyndar um ýmsa sem gætu gert þessi orð að sínum:

,,My life has been one long descent into respectability."

|

Það er ein setning sem er okkur efnafræðistúdentinum dálítið munntöm, einkum þó þegar við erum að horfa á viðtöl við stjórnmálamenn í sjónvarpi og þeir eru að bera eitthvað af sér eða neita einhverju sem augljóslega er þó rétt. Þá er hér á bæ gjarna vitnað í unglinginn Mandy Rice-Davies, sem sagði í vitnastúkunni í Old Bailey þegar lögmaður tilkynnti henni að Astor lávarður kannaðist ekkert við að hafa átt í kynlífssamandi við hana (lurid allegations of sexual shenanigans, var þetta einhvers staðar kallað, mér finnst það skemmtilega orðað):

,,Well, he would say that, wouldn't he?"

Þessi setning hefur okkur komið óvenju oft í hug síðustu dagana.

|

27.4.04

Davíð Þór Björgvinsson var áberandi í kvöldfréttunum. Ég hef ekki hitt hann í fjöldamörg ár en kannaðist vel við hann hér einu sinni, þegar við vorum bæði í sagnfræðinni; hann var meðal annars í hópi röskra sveina sem tóku að sér að bjarga mér frá illum örlögum á rannsóknaræfingu, ætli það hafi ekki verið fyrir jólin '78. Þá var viðloða sagnfræðina 150 kílóa náungi sem var nokkuð langt frá því að vera heill á geðsmunum. Þessi maður var yfir sig ástfanginn af hinu og þessu kvenfólki, þar á meðal (eða líklega einkum og sér í lagi) mér, og átti það til að senda mér í pósti ástarjátningar, gjarna í formi langra og óskiljanlegra ritgerða, en lét mig annars í friði. En daginn sem rannsóknaræfingin var kom Helgi Ingólfs til okkar Davíðs þar sem við sátum á kaffistofunni og sagðist hafa asnast til að segja náunganum að við værum ekki par (sem við vorum heldur ekki); hann hafði nefnilega staðið í þeirri meiningu alla önnina og þess vegna látið mig í friði, en ákvað nú að spyrja Helga og þegar hann fékk þetta svar varð hann mjög kátur og trúði Helga fyrir því að hann hefði fyrir skemmstu keypt í Máli og menningu bókina How to Pick up Girls (eða eitthvað álíka), væri búinn að stúdera hana alla og ætlaði nú aldeilis að beita þeim brögðum sem hann hefði lært á mig á rannsóknaræfingunni, fyrst ég væri á lausu.

Helgi og Davíð ákváðu samstundis að gerast verndarar mínir; kölluðu á fleiri stráka úr sagnfræðinni og þeir bundust samtökum um að slá um mig skjaldborg á rannsóknaræfingunni, gefa náunganum aldrei færi á að komast nálægt mér og skiptast svo á um að dansa við mig. Þetta tókst ljómandi vel, ég var umlukin karlmönnum allt kvöldið og held að ég hafi aldrei dansað jafnmikið á einu balli. Náunginn var oft á stjákli í kring en lét ekki til skarar skríða utan einu sinni, þá laumaðist hann aftan að mér og smellti skyndilega kossi á hálsinn aftanverðan; kannski var þetta ráðlagt í How to Pick up Girls en hafði þó ekki tilætluð áhrif.

Ég man að ég hafði af því nokkrar áhyggjur í jólafríinu að verða fyrir ásókn þessa manns þegar ég kæmi aftur í skólann og ekki víst að ég hefði alltaf jafnstóran hóp verndara. En ég sá lítið til hans eftir þetta, held að hann hafi dottið endanlega út úr skóla þegar jólafríið hófst - man samt eftir honum á áttadagsgleði í Sigtúni, þar sem hann gekk um og dreifði litlum vélrituðum miðum með nafni sínu og einhverjum upplýsingum um sig til allra kvenna sem voru ekki með karlmann upp á arminn, við litlar undirtektir.

|

Hvað er eiginlega orðið af Queer Eye for the Straight Guy? Alveg dottið út af dagskrá hjá Skjá 1? Við efnafræðistúdentinn bíðum allavega spennt eftir að sjá breytinguna á þessum hér. Annað eins möllett hef ég sjaldan séð.

|

Ég var að lesa umræðu um mannanöfn inni á malefnin.com. Ekki að ég ætli að fara að tjá mig um hvað séu falleg nöfn eða ljót, tæk eða ótæk - satt að segja held ég að eftir því sem ég eldist verði mér meira sama um hvað annað fólk lætur börnin sín heita. Þeirra vandamál. Ég hef samt alveg skoðanir á því hvaða nöfn mér finnst falleg/góð/ljót/hjólhýsaleg/skelfileg en ég er ekkert að tjá mig mikið um það. Segi ekki að það komi ekki fyrir að maður hristi hausinn og tauti ,,hvað er þetta fólk eiginlega að hugsa?" en það er bara minn smekkur. Ég hef sjálf reynslu af því að heita sjaldgæfu nafni (það var það allavega í Skagafirði á mínum uppvaxtarárum, og ég á reyndar enn stundum í erfiðleikum með að sannfæra enskumælandi fólk um að ég heiti þetta í alvöru) og þótt sumum þætti nafnið ónefni var það ekkert sérlega þungbært og mér þykir vænt um nafnið mitt. Nú, og ef foreldrar slysast til að gefa barni nafn sem það sættir sig ekki við sjálft vegna stríðni eða af öðrum orsökum, þá er hægt að breyta nafninu. Annað eins hefur fólk gert eins og ýmis dæmi eru um (t.d. Októ Nóvember, sem breytti nafni sínu í Ottó N. Þorláksson).

En það var ekki þetta sem ég ætlaði að skrifa um. Ég fór aftur á móti að velta því fyrir mér hvenær nafn yrði íslenskt. Ég tók eftir því að í þessum umræðum voru talin til nýrra nafna ýmis nöfn sem hafa lengi verið til hér á landi, að vísu mjög sjaldgæf. T.d. nafnið Elka. Elka Halldórsdóttir húsfreyja í Miðfelli í Þingvallasveit, fædd 1688, var langalangalangalangalangalangamma mín og samkvæmt Íslendingabók virðist nafnið hafa verið til nokkurn veginn óslitið frá því á 17. öld, þótt nafnberar hafi oftast verið örfáir. Mér finnst nafnið Elka vera frekar íslenskt, ekkert síður en t.d. Salka. Mekkín er annað nafn sem ég sá þarna - ókei, það kannski hljómar ekki eins íslenskt og Elka en það er samt búið að vera til a.m.k. frá því snemma á 17. öld og meira að segja ekkert svo sjaldgæft (en að vísu kannski óþekkt utan Austurlands). Eru þessi nöfn ekki orðin íslensk, rétt eins og Kristín og Katrín? Er Híram (búið að vera til frá 1835, jafnlengi og Nanna) eitthvað minna íslenskt en Adam? (Nei, mér finnst Híram ekki fallegt nafn. Ekki Adam heldur. En það er ekki málið.)

Ég er semsagt ekkert að pæla í því hvort þessi nöfn eða önnur eigi að vera leyfileg eða bönnuð. Bara skilgreiningum á/tilfinningum fyrir því hvenær nafn er orðið íslenskt.

|

26.4.04

Ég ákvað að vera blaðamaður og fór á fundinn. Hann var vel sóttur og nokkuð góður, það var samþykkt allharðorð ályktun gegn fjölmiðlafrumvarpinu og vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar.

Ef einhver sem var þar og sá mig vera að krota á blað mestallan tímann heldur að ég hafi gengist svona upp í blaðamennskunni að ég hafi verið að skrifa niður ársreikninga og umræður til að leggja út af í Gestgjafanum, ja, þá er það nú ekki alveg rétt. Ég skrifaði hins vegar niður uppskriftirnar að öllum réttunum sem ég eldaði í dag. Svona til að nota tímann.

|

Ég var að ljúka við að elda og láta mynda nokkra grænmetisrétti vegna verkefnis sem ég er að vinna fyrir Sölufélag garðyrkjumanna. Paprikur, kokkteiltómatar og salat - þeir eru að selja núna þrjár salattegundir saman í potti, sem er dálítið sniðugt, þá fær maður blandað salat en kaupir þó bara einn salathaus (já, auðvitað þrjá - en þeir eru semsagt allir vaxnir upp úr sama pottinum).

Mér finnst mjög gaman að elda úr íslensku grænmeti, það er að segja ef það er gott, og þetta var allt saman ljómandi ágætt. Tómatarnir voru búnir að bíða á eldhúsbekknum hjá mér í nokkra daga og voru orðnir knallrauðir, salatið var líka búið að bíða í nokkra daga en var brakandi ferskt af því að það var geymt í biofresh-hlutanum á ísskápnum. Paprikan sætbeisk og kryddjurtirnar ferskar og góðar. Sól á svölunum og gaman að vera til.

Ég væri samt alveg til í að vera stödd einhvers staðar örlítið sunnar á hnettinum.

|

Ég veit ekki hvernig á því stendur en ég er svo oft í hálfgerðum ,,identity crisis" eins og ég hef reyndar stundum komið inn á áður hér. Ég veit ekki alveg hvar ég stend eða hvað ég á að kalla mig, nema ég held að ég sé nokkuð seif með að vera matargúrú. Matargúrú bara virkar ekki alveg sem starfsheiti og það er ekki til neitt stéttarfélag matargúrúa.

Það er allavega á hreinu að ég er ekki kokkur, þrátt fyrir mitt (ónotaða) sjókokkapróf. Ekki get ég talið mig til menntamanna af neinu tagi, hvort sem litið er á námsferil (datt út úr háskólanámi eftir að hafa komið lítillega við í nokkrum greinum) eða menningarstig (ég er meira fyrir Viggó viðutan en Kafka og Tolstoj, svo dæmi sé tekið). Ég hef aldrei getað litið á mig sem rithöfund, allavega hefur mér ekki fundist ég uppfylla inntökuskilyrði Rithöfundasambandsins. Bókahöfund kannski, eins og ég skrifaði um hér. Ég var árum saman í Verslunarmannafélaginu en fjandakornið sem ég var nokkur verslunarmaður.

Og nú er ég komin í Blaðamannafélagið. En er ég blaðamaður? Tja ... æi, mér finnst það ekki. Blaðamenn eru svona fólk sem tekur viðtöl og er alltaf í símanum og skrifar greinar og eltist við nafnlausa heimildarmenn og hver veit hvað - reyndar hef ég ekki minnstu hugmynd um hvað blaðamenn gera. Mér finnst allavega blaðamenn ekki vera miðaldra húsmæður með símafóbíu sem standa hálfan daginn í eldhúsinu og skrifa uppskriftir eða liggja í matreiðslubókum þess á milli.

Ég er semsagt að reyna að gera það upp við mig hvort ég á að mæta á aðalfund Blaðamannafélagsins í kvöld.

|

25.4.04

Sauðargæran.

|

Ég er að horfa á Keith Floyd á BBC Food, hann er að elda einhvern kjúklingarétt. Var búinn að flambera hann með brandíi og ætlaði svo að hella rauðvíni á pönnuna og láta sjóða niður í sósu. En mistók sig á flöskum, hellti meira brandíi á pönnuna og upp gaus mikið bál. Floyd hrökk nokkur skref til baka og tautað svo: ,,Total confusion here. Well, it doesn't matter, it is all going towards a good cause," og hellti svo hálfri rauðvínsflösku á pönnuna. Mjög Floydískt og ég er viss um að sósan varð góð.

|

Ég á inni nokkur ,,wants" hjá Abebooks, þ.e. þegar bók sem passar við þær upplýsingar sem ég hef gefið er skráð inn í gagnagrunninn þeirra, hjá einhverjum af þeim þúsundum fornbókasala sem eru með í abebooks, þá fæ ég tölvupóst um það. Þannig hef ég fundið bækur sem ég hef leitað mjög lengi að. En stundum fæ ég líka tilkynningar um bækur sem eru ekki akkúrat það sem ég var að sækjast eftir þótt þær uppfylli skilyrðin. Til dæmis þessi hér, sem ég fékk tilkynningu um áðan - ég sá eftir nokkra skoðun hvað það var sem passaði. En ég hafði verið að leita að bók um matargerð í Baluchistan og nágrenni, ekki þessari hér:

,,Your Want:# A19807673 Has been matched with the following book(s): Reports on Crops, Forestry, Fishers and Livestock Sub-Sectors for Integration of National Conservation Strategy Recommendations into National Economy Planning Towards Sustainable Development the Natioanl Conservation Strategy of Bangladesh by M. Ibrahim, Abdul Wahab, Abdul Bari & Abdul Halim Miyan;Edited by Syed Salamat Ali, M. Shafi, Mahmudul Ameen, A.K.M. Giasuddin Milki & Kazi Abdul Fattah Ministry of Environment and Forest, National Conservation Strategy (NCS) Implementation Project-1, Government of the People's Republic of Bangladesh , Dhaka, 1999 {New Book} , pp. 216, Map, Biblio., Appendices, Tables, Glossary, Abbreviations, Annexures, Paper Cover, Size 29cm.The price of the book is US$ 63.00"

En reyndar minnti þetta mig á að það er langt síðan ég hef leitað að nokkrum titlum sem ég er með í sigti. Best að kíkja á Abebooks og BookFinder.

|