Ég kom við í Gvendi dúllara áðan og vitjaði um bók sem ég hafði verið látin vita að væri þar til og ég var lengi búin að leita að. Gaman, gaman. Ný matreiðslubók fyrir fátæka og ríka eftir Jóninnu Sigurðardóttur, reyndar ekki frumútgáfan frá 1915, heldur önnur prentun frá 1916, en sama er.
Aftast í bókinni er tafla yfir verð á matvælum á Akureyri veturinn 1913-14, því að eins og Jóninna segir: ,,... og hefur það verið látið haldast óbreytt, þar eð sennilegra þykir að það komi aptur eða því sem næst, enn dýrtíð sú sem nú er muni vara í mörg ár komandi." Bjartsýnismanneskja, Jóninna.
Nokkur dæmi úr töflunni - alls staðar miðað við 1 kíló:
Appelsínur 80 aurar
Egg 1 króna og 20 aurar
Gráfíkjur 28 aurar
Hveiti 32 aurar
Hrísgrjón 30 aurar
Hænsnakjöt 50 aurar
Hveitibrauð 40 aurar
Heilagfiski 30 aurar
Jarðarber (niðursoðin, væntanlega) 90 aurar
Kindakjöt 60 aurar
Kartöplur 12 aurar
Laukur 30 aurar
Lax 90 aurar
Linsur 56 aurar
Makaróní 75 aurar
Nautakjöt 75 aurar
Rúgmjöl 18 aurar
Rófur 10 aurar
Smjör 1 króna og 50 aurar
Smjörlíki 1 króna og 30 aurar
Svínakjöt 75 aurar
Súkkulaði 2 krónur og 30 aurar
Spínat 24 aurar
Sykur 50 aurar
Tómatar 80 aurar
Þorskur 12 aurar
Merkilegt, ég hafði t.d. ekki gert mér grein fyrir að hveiti og sykur hefðu á þessum tíma verið svona dýrar vörur, hlutfallslega.