Ég var alveg búin að gleyma biscotti-uppskriftinni sem ég var beðin um en hér er hún. Þetta er mjög einföld uppskrift en það er mikilvægt að rista möndlurnar, kökurnar verða ekki eins góðar ef notaðar eru óristaðar möndlur.
Biscotti di Prato
125 g heilar möndlur
2 eggjarauður
250 g sykur
250 g hveiti
örlítið salt
Ofninn hitaður í 200°C. Möndlunum dreift á bökunarplötu og þær bakaðar í u.þ.b. 5 mínútur, eða þar til þær eru rétt farnar að taka lit en ekki brenna. Látnar kólna og síðan grófsaxaðar. Eggjarauðurnar þeyttar með sykrinum þar til blandan er ljós og létt. Hveiti, möndlum og salti hrært saman við og hnoðað þar til deigið er slétt og samlagað en ekki lengur. Mótað í sívalninga. Þeir eru svo færðir yfir á pappírsklædda bökunarplötu og bakaðir við 180°C í um 25 mínútur. Þá er platan tekin úr ofninum og hitinn hækkaður aftur í 200°C. Lengjurnar skornar á ská í um 1 cm þykkar sneiðar, þeim raðað aftur á plötuna og kökurnar bakaðar í 20-30 mínútur í viðbót, eða þar til þær eru ljósgullinbrúnar og stökkar.
Svo þarf náttúrlega helst að hafa vin santo með.