Davíð Þór Björgvinsson var áberandi í kvöldfréttunum. Ég hef ekki hitt hann í fjöldamörg ár en kannaðist vel við hann hér einu sinni, þegar við vorum bæði í sagnfræðinni; hann var meðal annars í hópi röskra sveina sem tóku að sér að bjarga mér frá illum örlögum á rannsóknaræfingu, ætli það hafi ekki verið fyrir jólin '78. Þá var viðloða sagnfræðina 150 kílóa náungi sem var nokkuð langt frá því að vera heill á geðsmunum. Þessi maður var yfir sig ástfanginn af hinu og þessu kvenfólki, þar á meðal (eða líklega einkum og sér í lagi) mér, og átti það til að senda mér í pósti ástarjátningar, gjarna í formi langra og óskiljanlegra ritgerða, en lét mig annars í friði. En daginn sem rannsóknaræfingin var kom Helgi Ingólfs til okkar Davíðs þar sem við sátum á kaffistofunni og sagðist hafa asnast til að segja náunganum að við værum ekki par (sem við vorum heldur ekki); hann hafði nefnilega staðið í þeirri meiningu alla önnina og þess vegna látið mig í friði, en ákvað nú að spyrja Helga og þegar hann fékk þetta svar varð hann mjög kátur og trúði Helga fyrir því að hann hefði fyrir skemmstu keypt í Máli og menningu bókina How to Pick up Girls (eða eitthvað álíka), væri búinn að stúdera hana alla og ætlaði nú aldeilis að beita þeim brögðum sem hann hefði lært á mig á rannsóknaræfingunni, fyrst ég væri á lausu.
Helgi og Davíð ákváðu samstundis að gerast verndarar mínir; kölluðu á fleiri stráka úr sagnfræðinni og þeir bundust samtökum um að slá um mig skjaldborg á rannsóknaræfingunni, gefa náunganum aldrei færi á að komast nálægt mér og skiptast svo á um að dansa við mig. Þetta tókst ljómandi vel, ég var umlukin karlmönnum allt kvöldið og held að ég hafi aldrei dansað jafnmikið á einu balli. Náunginn var oft á stjákli í kring en lét ekki til skarar skríða utan einu sinni, þá laumaðist hann aftan að mér og smellti skyndilega kossi á hálsinn aftanverðan; kannski var þetta ráðlagt í How to Pick up Girls en hafði þó ekki tilætluð áhrif.
Ég man að ég hafði af því nokkrar áhyggjur í jólafríinu að verða fyrir ásókn þessa manns þegar ég kæmi aftur í skólann og ekki víst að ég hefði alltaf jafnstóran hóp verndara. En ég sá lítið til hans eftir þetta, held að hann hafi dottið endanlega út úr skóla þegar jólafríið hófst - man samt eftir honum á áttadagsgleði í Sigtúni, þar sem hann gekk um og dreifði litlum vélrituðum miðum með nafni sínu og einhverjum upplýsingum um sig til allra kvenna sem voru ekki með karlmann upp á arminn, við litlar undirtektir.