Það er sumardagurinn fyrsti á morgun. Ennþá. Þótt einhverjir séu að reka áróður fyrir því að færa hann yfir á föstudag eða mánudag. Gott ef ekki aftur á haust af því að það eru svo fáir frídagar á haustin.
Ég vil samt hafa sumardaginn fyrsta kjurran þar sem hann er. Það er nokkuð löng (þúsund ára?) hefð fyrir því að hafa hann á fimmtudegi. Ég er töluvert fyrir hefðir. Það er líka hefð fyrir því í minni fjölskyldu að gera góða hluti á sumardaginn fyrsta. Mamma og pabbi trúlofuðu sig á sumardaginn fyrsta fyrir 51 ári. Ég flutti á Kárastíginn á sumardaginn fyrsta fyrir 13 árum. Og undanfarin fjöldamörg ár hefur á mínu heimili ævinlega verið boðið upp á nýbakaðar pönnukökur á sumardaginn fyrsta og þær eru ævinlega bornar fram á blárósóttum diski. Íslenskara gerist það ekki.
Það eru semsagt pönnukökur á boðstólum á Kárastígnum á morgun fyrir þá sem eiga leið hjá. Samt ekki fyrr en eftir hádegi, ég er að fara á Pressuballið í kvöld og nenni örugglega ekki snemma á fætur.