Elín Alberts fullyrðir að hún hafi heilmikið verið að reyna að koma mér á séns á pressuballinu. Hmm. Eitthvað fóru þær tilraunir nú framhjá mér. Enda held ég að það sé skortur á frambærilegum miðaldra einhleypum karlmönnum í blaðamannastétt.
Eins og ég hef einhvern tíma áður lýst, þá hættir mér mjög til að klæða mig í samræmi við veðrið daginn áður þegar ég legg af stað í vinnuna á morgnana. Klikkaði einmitt á því núna og fór í þunnan og sumarlegan jakka sem Boltastelpan kallar vasaþjófagildruna (vasarnir á honum eru bara plat og eru opnir alveg niður úr þannig að það þýðir ekkert að reyna að seilast ofan í þá - verst að ég gleymi því stundum sjálf að vasarnir eru botnlausir og sting lyklum eða peningum í þá). En það er semsagt alls ekki veður til að ganga heim í slíkri flík. Típískt.