Pressuballið var bara ágætt. Þetta var síðkjólaball og þar sem ég er orðin frekar leið á báðum síðkjólunum mínum vissi ég ekki alveg í hverju ég ætti að vera; samstarfskonur mínar voru að grafa fram gamla erfðagripi, fá lánaða eða leigða kjóla eða kaupa þá. Ég á enga erfðagripi, engar vinkonur sem eiga fína kjóla (ekki sem passa á mig allavega), tími ekki að leigja mér kjól og Karen Millen á örugglega ekkert í mínu númeri. Þannig að ég skaust inn í búðina hjá Rauða krossinum á leiðinni heim og fann þennan fína síðkjól þar. Í rauðbrúnum lit sem ég held mikið upp á. Og hann smellpassaði. Ég keypti reyndar líka jakka og tvær blússur og borgaði þrjú þúsund fyrir allt saman. Bestu kaup sem ég hef gert lengi.