Mér finnst aldrei meiri þörf á litum til að lífga upp tilveruna en einmitt um háveturinn. En eins og ég hef áður talað um virðast Íslendingar almennt vera á öðru máli; hér í vinnunni finnst mér eins og allir nema ég séu hvít-, svart- eða gráklæddir í dag. Jæja, ein eða tvær bleikar kannski, en annars er þetta fólk ósköp litlaust. Ég er búin að setja körfu með sirka kílói af sérlega litsterkum chilialdinum á skrifborðið mitt til að vinna gegn þessum gráma.
Annars þarf ég að fara að gera alvöru úr því að mála eldhúsið (já, ég veit að ég ætlaði að gera það fyrir jólin). Dökkgræni liturinn er of dökkur. Fólk sem hefur séð eldhúsið má koma með tillögur að nýjum lit. Það getur jafnvel verið að skærgræni liturinn á borðstofunni fái að fjúka líka, ég veit að það eru skiptar skoðanir um hann þótt ég haldi upp á hann. Hmm, annars líst mér vel á rauðgula litinn á þessu chilialdini ...