Samstarfsfólk mitt var eitthvað óvenju svangt áðan; venjulega kem ég með það sem ég er að elda fram í afgreiðsluna þegar búið er að mynda það en í þetta skipti var eldhúsið orðið fullt af fólki að sníkja bita áður en eldamennskunni lauk. Það var reyndar allt í lagi, bara á meðan enginn borðar eitthvað sem ekki er búið að mynda eins og einu sinni gerðist - þegar ég ætlaði að fara að setja hvítlauks- og timjansteiktu kastaníusveppina á disk og láta mynda þá var einn vesæll sveppur eftir og það varð ekkert af þeirri myndatöku.
Þetta voru eiginlega ,,núðluréttir ríka mannsins" - venjulegar pakkanúðlur af þeirri tegund sem kostuðu einu sinni 29 krónur pakkinn en kosta eitthvað aðeins meira núna, en að viðbættu einhverju góðgæti - kjúklingi, lambakjöti, rækjum eða grænmeti - en allt mjög fljótlegt samt sem áður, enginn réttanna tók lengri tíma en 15 mínútur í undirbúningi og eldamennsku. Enda heitir nýi þátturinn sem ég er með núna í Gestgjafanum ,,Korter í kvöldmat".