Ég veit ekki um ykkur en ég er í chilivinafélaginu.
Akkúrat núna líður mér vel af því að mig logsvíður í allan munninn af chili-inu sem ég var að borða. Og er búin að vera að narta í í allan dag og síðustu daga af því að ég hef verið að vinna að chiliþætti fyrir Gestgjafann, sem við vorum svo að mynda áðan. Þetta er ekki sár sviði, heldur svona heitur, kitlandi sviði sem vekur upp hugsanir um sól og yl og gleði. Og kvefið sem ég hélt kannski að ég væri að fá í morgun er horfið út í hafsauga.
Er ég búin að fá nóg af chili í bili? Onei. Það verður haldið áfram í sama farvegi á morgun; reyndar er ég þá að elda austurlenska núðlurétti en það verður örugglega nóg af chili í þeim líka. Við erum nefnilega að vinna að blaði sem helgað verður framandlegum réttum og fjarlægum heimshornum - reyndar má segja að súpublaðið, sem er nýkomið út, sé það líka en það var ekki meðvituð stefna, bæði ég og aðrir sem skrifa í blaðið voru bara í frekar fjölþjóðlegum fasa.
En af því að ég er svona exótísk í vinnunni er ég að hugsa um að kaupa mér þorramat á heimleiðinni og gæða okkur efnafræðistúdentinum á honum. Allavega mér; hann er nú ónýtur við flest nema hangikjötið og harðfiskinn..