Mig dreymdi þrisvar í nótt að ég steyptist á hausinn niður stigann hér heima. Í einum draumnum hálsbrotnaði ég en hrökk upp með andfælum í hin tvö skiptin, áður en ég komst að því hver örlög mín urðu. Ekki veit ég fyrir hverjum fjandanum þetta er en er að hugsa um að minna efnafræðistúdentinn á það, svona til öryggis, að ég er nýbúin að lækka líftrygginguna mína.
Annars er hann á kafi í undirbúningi fyrir matarboðið sitt, búinn að vera að búa til pastadeig og skera það niður í tagliatelle, búinn að útbúa Amaretto-súkkulaðibúðing og vanillukryddaðan mascarponeost og fleira. Ég kem lítið nálægt þessu, er bara í ráðgjafahlutverki ef á þarf að halda - jú, og svo þarf ég að bregða mér í hlutverk kjötkaupmannsins og gera eitthvað af þessu sem heitir í þýddum matreiðslubókum ,,biðjið kjötkaupmanninn ykkar að ..." Þeir eru svosem liðlegir í Nóatúni svo að ég þarf ekki að draga upp sögina eða kjötöxina og höggva lambahrygginn til en ég ákvað að ,,snyrta hann til á franska vísu" fyrir drenginn, nennti ekki að útskýra fyrir þeim í Nóatúni hvernig það er gert.