(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

26.1.04

Ég sit og er að vesenast með teikningu af íbúðinni minni af því að það á loksins að fara að drífa í að gera eignaskiptasamning - það er verið að selja íbúðina á efstu hæðinni. Eina teikningin sem til er af íbúðinni er sú upprunalega, frá 1926, og íbúðin hefur tekið töluverðum breytingum síðan.

Á teikningunni eru dyr úr eldhúsinu inn í herbergið sem núna er borðstofa. Þær eru þar ekki lengur og þegar ég keypti íbúðina sáust þeirra engin merki. En ég er reyndar búin að láta saga hluta af veggnum burtu.

Á teikningunni eru dyr frá stigaganginum inn í stofuna. Og dyr frá stigaganginum inn í svefnherbergið mitt. Og dyr úr herbergi efnafræðistúdentsins inn á bað. Og dyr úr baðinu inn í búrið, sem nú er, en var áður bakdyrastigagangur.

Ef einhver undrast að það skuli hafa verið gengið úr baðherberginu beint út á stigaganginn (og það eru þrennar dyr á herberginu samkvæmt teikningunni, sem er frekar óhentugt þegar um baðherbergi er að ræða), þá ber þess að geta að það er ekki teiknað sem baðherbergi. Það er ekkert klósett á teikningunni, þaðan af síður bað. Ég man ekki hvort baðherbergið var í kjallaranum eða úti í skúrnum í garðinum (þar var þvottahúsið allavega) en klósettið - ja, kannski var bara kamar á bak við hús. Einhverntíma seinna var svo klósett í skoti út frá stigaganginum, þar sem fatahengið mitt núna.

En ég hef aldrei vitað jafnlitla íbúð með jafnmörgum dyrum. Ellefu dyr í fjögurra herbergja íbúð ... Það kemur iðulega fyrir að fólk villist á leið út úr íbúðinni minni, þótt búið sé að múra upp í þónokkur dyraop. Ekki veit ég hvernig það hefur verið hér áður fyrr.

Reyndar verður að geta þess að þetta voru lengi vel tvær íbúðir, þó ekki alveg aðskildar. Gangurinn var t.d. sameiginlegur og klósettið væntanlega líka. Fyrir einhverjum áratugum voru þær svo sameinaðar, baðherbergi innréttað í öðru eldhúsinu og dyrum fækkað til muna. Þannig að það þarf töluvert að lagfæra teikninguna áður en unnt er að ganga frá eignaskiptasamningi.

|