Ég sá það ekki fyrr en núna rétt áðan að það er National Apple Pie Day. Ég nenni ekki að útbúa eplaböku úr því sem komið er, enda mundi ég sitja ein að henni - eplabökur eru ekki í sérstöku uppáhaldi hjá efnafræðistúdentinum - og ég held ég láti National Buttermilk Bisquit Day, sem er á morgun, alveg framhjá mér fara. En fimmtudagurinn er Chocolate Chip Day. Það líst mér betur á.
Annars hef ég alveg misst af því, sé ég, að afmælisdagurinn minn var National Ravioli Day. Reyndar ágætt að ég vissi það ekki, ég hefði örugglega talið mér skylt að búa til ravioli og það þarf sérstaka hugarró til þess, ég komst að því hér um árið. Og þar sem þetta var einmitt daginn sem innrásin í Írak hófst hefði ég örugglega ekki verið í réttu skapið. Það hefði örugglega farið eins og þegar ég vöðlaði raviolideiginu saman, grýtti því í pottinn með fyllingunni og hvæsti á efnafræðistúdentinn, sem þá var ungur og skegglaus ,,komdu, við fáum okkur hamborgara".
Og svo er 8. júní berlínarbolludagurinn ...