Frétt dagsins er að kvöldið endaði ekki á Vínbarnum, ég fór heim eftir dinnerinn í Perlunni. Sem stóð reyndar allt of lengi, ég skil ekki af hverju þarf að líða hálftími á milli rétta. Síst þegar ekki er byrjað að borða fyrr en eftir níu.
Þýski kokkurinn - ég var næstum búin að skrifa sænski kokkurinn - vann kokkakeppnina og kom mér reyndar ekki mikið á óvart. Og þess má geta að matseðillinn hans - sem er mjög fínn og mjög spes eins og ég lýsti í gær - verður í boði á Argentínu fram á næsta fimmtudag.
Þeir sem vilja geta svo komið og horft á áhugamannakeppnina í Smáralind kl. 2-4 á sunnudag.
Áður en ég fer þangað að sinna dómarastörfum þarf ég aftur á móti að baka einhver ósköp af bollum fyrir mitt árlega bollukaffi, sem að þessu sinni er ekki á bolludaginn. Það er reyndar aldrei á bolludaginn. Og skjótast niður á Hótel Borg með bók handa David Rosengarten. Og taka til. Og ... eitthvað sem ég er að gleyma núna. Þannig að ég ætti líklega að fara að sofa.